Fyrsta Grímseyjarferðin tókst vel

Um var að ræða fyrstu ferð Ambassadors með farþega frá …
Um var að ræða fyrstu ferð Ambassadors með farþega frá Akureyri til Grímseyjar á skipinu Arctic Circle. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Fyrsta ferð Arctic Circle, skips hvalaskoðunarfyrirtækisins Ambassador, frá Akureyri til Grímseyjar heppnaðist framar vonum. Siglingin tekur aðeins tvo tíma en í sumar verða farnar fjórar ferðir í viku frá Akureyri til Grímseyjar.

Skipið var keypt frá Noregi og var ferðin í gær fyrsta ferð þess eftir gagngerar breytingar.

Farþegarnir í fyrstu ferðinni voru heldur ekki af lakara taginu, Karlakór Eyjafjarðar.

Á leiðinni út Eyjafjörð var svipast um eftir hval, en þeirra var ekki langt að bíða, enda hafa verið hvalir innarlega í Eyjafirði frá því snemma í vor. Síðan var siglt yfir Grímseyjarsund. Þegar út í eyju kom var sól og blíðskaparveður.

Meðlimir Karlakórs Eyjafjarðar voru fyrstu farþegarnir.
Meðlimir Karlakórs Eyjafjarðar voru fyrstu farþegarnir. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Farið var yfir heimskautsbaug með Gylfa Gunnarssyni, skipstjóra úr Grímsey,  og skoðaður lundi í Básavík, en þar er einhver mesta lundabyggð landsins.

Karlakór Eyjafjarðar hélt síðan tónleika í félagsheimilinu Múla í Grímsey. Var slegið upp veislu og boðið upp á góðgæti úr hafi og eyju. Farþegar í þessari fyrstu ferð voru rúmlega eitt hundrað en þeir sögðu margir hverjir að siglingin inn Eyjafjörðinn á bakaleiðinni, með dynjandi söng og miðnætursólina í baksýn, yrði þeim ógleymanleg.

Gylfi Gunnarsson, skipstjóri í Grímsey, við Arctic Circle. Gylfi var …
Gylfi Gunnarsson, skipstjóri í Grímsey, við Arctic Circle. Gylfi var leiðsögumaður hópsins þegar siglt var í kringum eyjuna. mbl.is/Þorgeir Baldursson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert