Líkamsárásir, eignaspjöll og húsbrot

mbl.is/Eggert

Mikið var að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Einkum vegna fólks sem var annaðhvort undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Einnig komu upp mál vegna líkamsárása og eignaspjalla.

Þannig var karlmaður í annarlegu ástandi handtekinn í Garðabæ um klukkan hálfellefu í gærkvöld grunaður um húsbrot og heimilisofbeldi. Var hann vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

Skömmu eftir miðnætti var bifreið stöðvuð við Stekkjarbakka í Reykjavík vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna, brot á lyfjalögum og vörslu, sölu og dreifingu á fíkniefnum. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Þrír ungir karlmenn voru handteknir í Breiðholti í Reykjavík um klukkan eitt grunaðir um húsbrot og líkamsárás. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

Ennfremur var tilkynnt líkamsárás á veitingahúsi í Kópavogi um klukkan hálftvö. Talið er að fórnarlambið hafi verið nefbrotið. Málið er í rannsókn.

Tilkynnt var um líkamsárás við Naustin um klukkan 3:40. Þar hafði karlmaður verið sleginn í höfuðið með glasi og var hann fluttur á slysadeild. Eftir það voru bæði árásarmaðurinn og fórnarlambið vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. Ætluð fíkniefni fundust á öðrum mannanna.

Erlendur ferðamaður var handtekinn í Austurstræti um klukkan hálffimm grunaður um eignaspjöll. Það er að hafa brotið rúðu. Var hann vistaður í fangageymslu.

Þá komu upp ýmis mál þar sem ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna sem og önnur umferðarlagabrot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert