Ragnheiður: Það verður kosið í haust

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segist líta svo á að þingkosningar fari fram í haust. Það hafi komið skýrt fram af hálfu forystumanna ríkisstjórnarinnar.

Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segir hins vegar að það verði fyrst að koma í ljós hvernig þingstörfin muni ganga og hvort ríkisstjórninni takist að klára þau stóru mál sem hún hefur sagst ætla að klára.

Rætt var um málið í útvarpsþættinum Á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Ásmundur Einar sagði það nokkuð ljóst að þegar skipt var um forsætisráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson tók við embættinu, í vor hefði verið talað um að kosningunum yrði mögulega flýtt og þær færu fram í haust ef ríkisstjórninni tækist að klára ákveðin stór mál sem lægju fyrir. Það yrði að koma í ljós hvernig það gengi. Gangurinn í þinginu væri mjög góður um þessar mundir og ef hægt væri að ljúka þessum málum ætti að vera hægt að flýta þingkosningum.

Ásmundur Einar Daðason.
Ásmundur Einar Daðason. mbl.is/Eggert

Ekkert með minnihlutann að gera

Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata, sagði þetta ótrúlegan málflutning. Það hefði verið lagt til að kosningnum yrði flýtt vegna kröfu sem kom frá almenningi, ekki minnihlutanum á þingi. „Þetta hefur ekkert með minnihlutann að gera,” sagði hún. Það væri ómöguleg krafa að stjórnarandstaðan ætti bara að vera þæg og lömuð og veita ríkisstjórninni ekki það aðhald sem hún ætti að veita.

Stjórnarandstaðan hefði ekki einu sinni fengið í sínar hendur málaskrá ríkisstjórnarinnar og vissi því ekki um hvaða stóru mál væri að ræða. „Mér finnst þetta ekki gott stjórnarfar.”

Hún bætti því við að flokkarnir þyrftu auk þess að undirbúa prófkjör ef kosningar ættu að fara fram í haust. Það tæki tíma og orku. Ríkisstjórnin væri í raun búin að setja stóran hóp fólks, sem hefði í hyggju að bjóða fram krafta sína í prófkjörum, í „algjört uppnám með því að hringla með þetta”. Það væri betra ef ríkisstjórnin yrði bara skýr og segði að kosningar yrðu ekki í ár, ef vilji hennar standi til þess.

Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir. mbl.is/Eggert

Ragnheiður ekki tekið ákvörðun

Ragnheiður sagði það hafa komið skýrt fram af hálfu Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra að kosið yrði í haust. Í því sambandi hefðu menn nefnt seinni hluta október. „Í mínum flokki erum við þegar farin að undirbúa kosningar í október,” nefndi hún. Kjördæmisráð víða um land hefðu fundað og tekið ákvörðun um að það yrði haldið prófkjör í ýmsum kjördæmum flokksins.

Aðspurð sagðist Ragnheiður ekki hafa tekið ákvörðun um hvort hún ætli að bjóða sig fram á nýjan leik í haust. Birgitta sagðist ætla að halda áfram í pólitík, þó aðeins um stutt skeið. Ásmundur Einar sagðist einnig stefna að því að bjóða sig fram í haust, þangað til annað kæmi í ljós.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert