Útlit fyrir 20 stiga hita

Búast má við góðu veðri um helgina.
Búast má við góðu veðri um helgina.

Útlit er fyrir að hiti nái 20 stigum í flestum landshlutum seinni hluta vikunnar. Þá má búast við ljómandi fínu veðri alla vikuna að sögn Birtu Lífar Kristinsdóttur, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. 

Á morgun má gera ráð fyrir hægum vindi og að víðast hvar verði skýjað með köflum. Helst má gera ráð fyrir því að það sjáist til sólar vestanlands en að skýjað verði fyrir norðan. Á þriðjudag má búast við vætu vestanlands og að aðeins bæti í vind allra vestast. 

Veður fer hlýnandi alla vikuna og eftir miðvikudag má búast við því að léttskýjað verði fram yfir helgi. Að sögn Birtu verður sjómannadagshelgin ljómandi fín, en þá mun hiti fara upp í 20 stig í flestum landshlutum og vindur verður hægur. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á þriðjudag:
Suðaustlæg átt, 5–13 m/s, skýjað með köflum og dálítil væta vestast, en hægari vindur A-til og bjartviðri NA-lands. Hiti 10 til 16 stig. 

Á miðvikudag:
Suðvestlæg átt 5–10 m/s og lítils háttar rigning við S- og V-ströndina, en annars bjartviðri. Hlýnar í veðri. 

Á fimmtudag, föstudag, laugardag og sunnudag:
Hæg breytileg átt og víða léttskýjað, en líkur á þokulofti við sjávarsíðuna. Hlýnar enn frekar í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert