Vopnlausir á EM í íslenskum búningum

Vilhjálmur Gíslason lögreglumaður
Vilhjálmur Gíslason lögreglumaður mbl.is/Árni Sæberg

Átta manna hópur íslenskra lögreglumanna heldur til Frakklands í byrjun júní til að aðstoða við að halda uppi lögum og reglu meðan á Evrópumótinu í knattspyrnu stendur þar í landi.

Þetta verður í fyrsta sinn sem íslenskir lögreglumenn sinna löggæslu á stórmóti sem þessu, enda hefur íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu aldrei áður öðlast þátttökurétt á slíku móti. 

„Þetta leggst ótrúlega vel í okkur. Þetta er einstakt tækifæri út frá löggæslulegu sjónarmiði. Þetta hefur aldrei verið gert áður og við erum mjög spenntir fyrir verkefninu sem slíku,“ segir Vilhjálmur Gíslason, lögreglufulltrúi á alþjóðadeild ríkislögreglustjóra, sem verður leiðangursstjóri íslenska hópsins.

Frétt mbl.is: Senda átta lögreglumenn á EM

Lögreglan fékk boð um það í mars síðastliðnum að taka þátt í löggæslu á EM. Í kjölfarið sótti Vilhjálmur fund í Vínarborg með innanríkisráðuneytinu og fulltrúum hinna þjóðanna í riðlinum; Austurríki, Ungverjalandi og Portúgal. Þar báru menn saman bækur sínar í samstarfi við Frakkana.

Tveir í miðstöð, sex í færanlegri sveit

Tveir lögreglumenn frá hverju þátttökuríki fyrir sig verða staðsettir í samhæfingarmiðstöð í París á meðan á mótinu stendur. Að auki verða þar fulltrúar franskra löggæsluyfirvalda og fulltrúar frá Interpol og Europol. Reglulegir fundir verða haldnir í miðstöðinni og allar helstu ákvarðanir teknar.

Hinir sex lögreglumennirnir frá Íslandi verða í færanlegri sveit og mætir hún til borgarinnar St. Etienne tveimur dögum fyrir fyrsta leik íslenska landsliðsins við Portúgal 14. júní.  „Við hittum yfirvöld frönsku lögreglunnar þar í landi og fáum upplýsingar um hvernig við vinnum með þeim,“ segir Vilhjálmur og tekur fram að íslenski hópurinn hafi engar valdheimildir í Frakklandi. Hann muni ekki bera nein vopn og eingöngu klæðast íslenska lögreglubúningnum sem þeir mörg þúsund Íslendingar sem ætla á EM ættu að kannast vel við.

Velodrome-leikvangurinn í Marseille þar sem Ísland leikur við Ungverjaland.
Velodrome-leikvangurinn í Marseille þar sem Ísland leikur við Ungverjaland. AFP

Lítill áhugi á knattspyrnu

Allir lögreglumennirnir koma frá ríkislögreglustjóra. Þar sem ekki tókst að fá lögreglukonur í hópinn var leitað eftir mönnum sem eru vanir alþjóðalögreglusamvinnu og eru vanir að vinna erlendis.

Aðspurður segir Vilhjálmur að lítill áhugi sé fyrir knattspyrnu á meðal lögreglumannanna. Þeir hafi meiri áhuga á verkefninu en fótboltanum sjálfum. „Ég held að þessir lögreglumenn myndu sumir falla á prófi í sambandi við þekkingu á fótbolta,“ segir hann og hlær. „Fótbolti er ekki efstur  á þeirra áhugamálalista.“

Fylgjast með vandræðagemlingum

Íslenski lögregluhópurinn mun vinna náið með frönsku lögreglumönnunum og ekki víkja frá þeim. Hann verður staðsettur þar sem franska lögreglan óskar eftir, hvort sem það verður fyrir utan knattspyrnuleikvanga eða innan þeirra meðan á leikjunum stendur. Helsta verkefnið verður að veita íslensku stuðningsmönnunum aðstoð ef einhver vandamál koma upp. Einnig verða þeir á varðbergi ef þeir koma auga á íslenska stuðningsmenn sem gætu orðið til leiðinda og munu þá benda frönsku lögreglunni á þá.

Enginn á bannlista

Vilhjálmur segir enga Íslendinga vera á bannlista, ólíkt stuðningsmönnum flestra annarra landsliða sem taka þátt í mótinu. „Þetta er vandmál úti um alla Evrópu en við höfum sloppið blessunarlega vel við þetta og við viljum halda því þannig sem lengst. Okkar hlutverk er að koma auga á þá sem eru líklegir en við eigum alls ekki von á því að til þess komi hjá okkur,“ segir hann.  „Frakkarnir stjórna þessu en ef þeir vilja að við höfum afskipti af Íslendingum þá gerum við það. En við erum fyrst og fremst eins konar milliliður á milli stuðningsmanna og Frakkanna og eigum að veita alla þá aðstoð sem við getum.“

Fánar með kynþáttahatri ekki í boði

Hvert yrði hlutverk ykkar ef slys eða óeirðir yrðu á EM?

„Ef Frakkarnir myndu ákveða að rýma svæði myndum við kannski veita aðstoð við að koma Íslendingunum í burtu. En við tökum ekki þátt í neinum átökum. Til dæmis ef Íslendingur væri kolvitlaus þá höfum við mínútu til að tala hann til. Ef hann hlýðir ekki tekur franska lögreglan við,“ greinir Vilhjálmur frá. „Við munum ekki handtaka einn eða neinn.“

Íslensku lögreglumennirnir munu einnig fylgjast með fánum og borðum íslensku stuðningsmannanna til að ganga úr skugga um að þar verði enginn vafasamur boðskapur, til dæmis tengdur kynþáttahatri.

Lögreglumenn að störfum fyrir utan Velodrome-leikvanginn í Marseille eftir leik …
Lögreglumenn að störfum fyrir utan Velodrome-leikvanginn í Marseille eftir leik í frönsku deildinni fyrir skömmu. AFP

Nýjustu upplýsingar á samfélagsmiðlum

Áhyggjur hafa verið uppi um að hryðjuverkaárás verði framin á EM, í ljósi þess að mannskæðar hryðjuverkaárásir voru gerðar á París í fyrra. Vilhjálmur segir allar viðbragðsáætlanir vegna þess fara í gegnum stjórnstöðina í París. „Ef eitthvað kemur upp þá miðlum við þeim upplýsingum áfram,“ segir hann og nefnir að hópurinn muni birta nýjustu upplýsingar á Facebook, Twitter og Instagram. Þar geti fjölmiðlar, fararstjórar, KSÍ, stuðningsmannasveitin Tólfan, sendiráð og allir aðrir stuðningsmenn fylgst vel með öllu því nýjasta úr herbúðum lögreglunnar frá fyrstu hendi.

Vilhjálmur vonast eftir góðu samstarfi við Tólfuna meðan á mótinu stendur og ætlar sér að hitta forsvarsmenn hennar eftir helgi og ræða við þá um EM. „Ég hef unnið með Tólfunni áður og hef átt einstaklega gott samstarf við þá. Þeir hafa sagt við mig að þeir ætli ekki að búa til neina hættu og muni vinna með okkur að öllum góðum málum.“

Heim 25. júní í fyrsta lagi

Lögreglumenn allra þátttökuþjóðanna á EM eiga að vera mættir til Parísar 6. júní. Þá verða átta dagar þangað til fyrsti leikur Íslands verður háður við Portúgal 14. júní.  Íslensku lögreglumennirnir munu því dvelja í nokkra daga í París þar sem þeir taka þátt í ákveðinni dagskrá áður en þeir halda til  St. Etienne. 

Allir lögreglumenn eru skyldugir til að vera í Frakklandi í tvo daga eftir að landslið þeirra fellur úr keppni og því fara Vilhjálmur og félagar heim á leið í fyrsta lagi 25. júní. Vonandi mun heimför þeirra samt dragast verulega á langinn. 

Íslenska landsliðið leikur á EM 2016 í Frakklandi.
Íslenska landsliðið leikur á EM 2016 í Frakklandi. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert