Að hámarki þrír mánuðir í tryggingu

Nokkur húsnæðisfrumvörp eru hjá Alþingi, m.a. um húsaleigulög, húsaleigubætur og …
Nokkur húsnæðisfrumvörp eru hjá Alþingi, m.a. um húsaleigulög, húsaleigubætur og almennar félagsíbúðir. Stefnt er að því að koma þeim öllum fyrir Alþingi í þessari viku. mbl.is/Styrmir Kári

Leigusölum verður aðeins heimilt að krefjast fyrirframgreiðslu fyrir einn mánuð og tryggingar að hámarki fyrir þrjá mánuði verði frumvarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, að lögum. Frumvarpið var afgreitt með samhljóma nefndaráliti úr velferðarnefnd Alþingis í morgun og er stefnt að því að afgreiða það á Alþingi í þessari viku að sögn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, formanns velferðarnefndar.

Í frumvarpinu kemur fram að leigusölum sé óheimilt að gera fjárnám á tryggingu fyrir leigu enda sé tryggingin ekki eign leigusala. Þá verður leigusölum gert að endurgreiða tryggingu innan fjögurra vikna frá skilum á hinu leigða húsnæði en í núverandi lögum hafa leigusalar tvo mánuði til að endurgreiða trygginguna.

Kærunefnd húsamála er nýtt úrræði sem leigjendur geta gripið til

Úrræði sem leigjandi getur gripið til gagnvart leigusala eru aukin með frumvarpinu, t.a.m. ef leigusali stendur ekki við viðhald á leigutímanum þá er leigjendum gert auðveldara að fara fram á riftun leigusamnings. Sigríður Ingibjörg segir að til þess að auka eftirlit með lögunum verði kærunefnd húsamála komið á laggirnar.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir í ræðustól Alþingis.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir í ræðustól Alþingis. mbl.is/Ómar

Úrskurðir kærunefndarinnar verða bindandi í þeim ágreiningsmálum sem lögð eru fyrir nefndina um gerð og framkvæmd leigusamninga, m.a. ágreiningur sem tengist framkvæmd úttekta, mat á lækkun leigu og á nauðsyn viðgerða.

„Eftirlit með leigusamningum er bætt með því að gera úrskurði kærunefndar húsamála bindandi hvað varðar ágreiningsmál um leigusamninga,“ segir Sigríður Ingibjörg og bætir við að í frumvarpinu komi eins inn ákvæði um brunavarnir. 

„Þeim hefur oft verið ábótavant í leiguhúsnæði. Nú eru brunavarnir og viðhald vegna þeirra á ábyrgð leigusala. Það eru auknar kröfur á leigusala að tryggja viðunandi brunavarnir,“ segir Sigríður.

Frumvarpið er eitt af nokkrum húsnæðisfrumvörpum sem eru langt komin hjá Alþingi. Velferðarnefnd kemur saman síðar í dag til þess að fjalla um almennar félagsíbúðir en stefnt er að því að afgreiða frumvarpið úr nefndinni í dag þannig að hægt sé að bera það undir atkvæði á Alþingi. Felur frumvarpið í sér fjölgun íbúða um 2.300 á næstu fjórum árum með aðkomu ríkis og sveitarfélaga að stofnun fasteignafélaga sem rekin eru án hagnaðar.

Þá er frumvarp um húsnæðisbætur hjá nefndinni en það er ekki eins langt komið þó eins sé stefnt að því að afgreiða það úr nefndinni í þessari viku.

Frétt mbl.is: 2.300 íbúðir á fjórum árum

Frétt mbl.is: BSRB fjölgar íbúðum ásamt ASÍ

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert