Íslendingar framseldir til 29 Evrópuríkja

AFP

Framselja verður íslenska ríkisborgara til allra ríkja Evrópusambandsins auk Noregs samkvæmt lögum um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar sem tóku gildi 25. maí. Með samþykkt laganna var Evrópska handtökuskipunin (e. European Arrest Warrant) lögfest hér á landi en Ísland og Noregur tóku ákvörðun um að gerast aðilar að henni þrátt fyrir að standa utan sambandsins.

Fram til þessa hefur meginreglan í íslenskum lögum verið sú að íslenskir ríkisborgarar væru ekki framseldir til annarra ríkja. Þetta hefur einnig víða verið reglan erlendis. Undanteking frá þessu hefur verið sú að Norðurlöndin hafa í rúma hálfa öld framselt eigin ríkisborgara sín á milli að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Með samþykkt laganna verða íslenskir ríkisborgarar þar með framseldir til 28 ríkja Evrópusambandsins auk Noregs í stað fjögurra ríkja áður.

Stjórnvöld fengu undanþágu en féllu frá henni

Fram kemur í greinargerð sem fylgdi lagafrumvarpinu að í samningaviðræðum Íslands, Noregs og Evrópusambandsins hafi upphaflega verið lögð áhersla á það af Íslands hálfu að ekki yrði fallist á afhendingu íslenskra ríkisborgara. Fyrir vikið hafi verið sett heimild í samninginn þess efnis að frá þeirri meginreglu mætti víkja með sérstakri yfirlýsingu. Hins vegar hafi stjórnvöld ákveðið að falla frá þeirri afstöðu eftir að leitað hafði verið álits réttarfarsnefndar.

Rök réttarfarsnefndar eru þau að framsalsreglur hafi sögulega þróast í samskiptum ríkja og eigi „að fela í sér gagnkvæma viðurkenningu á nauðsyn virkrar aðstoðar og samstarfs á sviði refsimála til að markmið innlendrar refsivörslu nái í hvívetna tilgangi sínum.“ Nefndin telji að það kunni að vera rökrétt og nauðsynlegt fyrir íslenska refsivörslukerfið að þróun í alþjóðlegu samstarfi ríkja sem Ísland eigi aðild að hafi áhrif á mat á því hvort breyta eigi fyrri reglum.

Rök að önnur ríki framseldu ekki eigin borgara

„Vaxandi samgangur og samstarf á milli landa kann því að auka þörfina fyrir breytingar sem leiða til aukins samræmis á milli framsalsreglna hér á landi og í þeim ríkjum sem eru þátttakendur í slíku samstarfi. Þá bendir refsiréttarnefnd jafnframt á að vegna sameiginlegra refsivörslusjónarmiða hefur verið talið mikilvægt að gæta verulegs samræmis við mótun og þróun framsalsreglna hér á landi og sambærilegra reglna á hinum Norðurlöndunum,“ segir ennfremur.

Þá hafi það verið sjálfstæð röksemd fyrir banni við framsali íslenskra ríkisborgara að slík bann væri einnig í löggjöf hinna Norðurlandanna með þeirri undasntekningu að framselja hafi mátt norræna ríkisborgara á milli Norðurlandanna. Slíkt bann hafi nú verið afnumið í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð með þátttöku þeirra í evrópsku handtökuskipuninni sem aðildarríki Evrópusambandsins. Þá hafi Norðmenn ákveðið að nýta sér ekki undanþágu í þeim efnum.

Ekkert í vegi þess að hverfa frá fortakslausu banni

„Það er því afstaða refsiréttarnefndar að hvorki stjórnskipuleg né sérstök refsiréttarleg rök standi því í vegi að horfið sé í einhverjum mæli frá hinu fortakslausa banni við framsali íslenskra ríkisborgara til annarra ríkja en Norðurlandanna sem nú er í gildi,“ segir í greinargerðinni. Þó sé bent á að slíkar ákvarðanir verði að taka nægilegt mið af grundvallarsjónarmiðum um réttaröryggi íslenskra ríkisborgara og erlendra sakamanna og mannúðarsjónarmiðum.

„Því verði að meta í hverju tilviki þann ávinning sem felst í rýmkun á reglum af þessu tagi fyrir íslenskt refsivörslukerfi og af þátttöku í alþjóðlegu samstarfi á sviði löggæslu, svo sem um evrópska handtökuskipun,“ segir áfram. Þar skipti máli hvernig fyrirkomulagi og málsmeðferð framsalsmála sé háttað, meðal annars með tilliti til réttaröryggis sakamanna, og ástandi refsivörslu í einstökum ríkjum. Meðal annars hvað varðar grundvallarreglur refsiréttar.

Framsal á eigin ríkisborgurum skal vera gagnkvæmt

„Efnis- og málsmeðferðarreglur um framsal íslenskra ríkisborgara verða sem fyrr að tryggja að lagt verði á það mat hvort tilefni sé til að verða við beiðni um framsal frá ríki innan Evrópusambandsins að virtu réttaröryggi sakamanna,“ segir ennfremur í greinargerðinni með vísan í álit réttarfarsnefndar. Settir eru ákveðnir fyrirvarar í lögunum vegna framsals íslenskra ríkisborgara. Meðal annars að það verði ekki gert nema framsal á eigin ríkisborgurum sé gagnkvæmt.

Sömuleiðis er heimilt að hafna framsalsbeiðnum vegna íslenska ríkisborgara ef um er að ræða stjórnmálaafbrot svo dæmi sé tekið. Það á þó ekki við ef brotin tengjast hryðjuverkastarfsemi. Sömuleiðis er hægt að setja það skilyrði fyrir framsali íslensks ríkisborgara að hann afpláni hugsanlega refsingu hér á landi. Þá má hafna framsalsbeiðni vegna íslenskra ríkisborgara ef framsalið snýst um fullnustu refsingar og fara fram á að afplánun fari fram hér á landi.

(Lögin voru samþykkt 25. maí og hefur fréttin verið uppfærð í samræmi við það.)

Ólöf Nordal Innanríkisráðherra
Ólöf Nordal Innanríkisráðherra mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert