Katrín: Á Íslandi búa tvær þjóðir

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. mbl.is/Styrmir Kári

Panamaskjölin hafa afhjúpað að á Íslandi búa tvær þjóðir. Þau hafa afhjúpað hvernig sumir hafa fjármagn sem þeir geta nýtt sér til að spila á öðrum leikvelli en okkur hinum er ætlaður. Bjartari tímar í efnahagsmálum duga ekki til ef við þorum ekki að ráðast að rótum þessarar misskiptingar.

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í eldhúsdagsræðu sinni á Alþingi í kvöld. 

Hún sagði að afhjúpanir Panamaskjalanna hefðu jafnframt rifjað upp fyrir okkur með áþreifanlegum hætti að fjármálakerfið, sem hefði verið byggt upp fyrir hrun af nýfrjálshyggjuöflunum, núverandi stjórnarflokkum, hefði lifað af.

„Hér á landi er fámennur hópur, þeirra á meðal ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, sem tók þátt í því að nýta sér aflandsfélög í skattaskjólum til að geyma sína peninga. Þessi félög lúta ekki sömu reglum og við setjum okkar eigin viðskiptalífi og samþykkjum hér á Alþingi Íslendinga,“ sagði Katrín.

„Af hverju eru ekki allir glaðir?“

Hún nefndi að eftir hraðskreiðar breytingar í upphafi þessarar aldar, einkavæðingu bankanna, einföldun regluverks og uppbyggingu fjármálakerfis, sem hefðu verið flestum Íslendingum eins og hulinn heimur, hefði komið hrun 2008 þegar Pótemkíntjöldum gervivelmegunar var svipt frá á einni viku.

„Nú átta árum síðar, eftir mikið starf margra, ekki síst almennings sem tók á sig auknar byrðar og erfiðleika, eru bjartari horfur í efnahagsmálum þjóðarinnar en lengi hefur verið. Það er gott og við Íslendingar getum bæði þakkað okkur sjálfum en líka forsjóninni sem færði okkur bæði makríl og ferðamenn þegar neyðin var mest sem hefur hjálpað okkur upp úr öldudalnum.

Og af hverju eru þá ekki allir glaðir og reifir?

Svarið við því er einfalt því bjartari tímar í efnahagsmálum duga ekki til ef meginþorri almennings í landinu fær ekki að njóta þessara bjartari tíma og reynir á eigin skinni rangláta skiptingu auðs, ranglátt kerfi sem meðhöndlar ekki alla jafnt,“ sagði Katrín.

Kerfið skapi misskiptingu

Alls staðar í heiminum væri fólk að vakna til vitundar um að það er ekki eðlilegt að ríkasta eina prósentið í heiminum eigi meira en hin 99 prósentin. Hér á Íslandi væri fólk að vakna til vitundar um það að það er ekki eðlilegt að ríkustu tíu prósentin eigi nærri þrjá fjórðu alls auðs hér á landi. 

„Því að þessi misskipting byggist ekki á dugnaði og verðleikum hinna ríkustu heldur þeirri staðreynd að á Vesturlöndum hefur verið reist kerfi sem hyglir hinum auðugustu og kemur niður á millitekju- og lágtekjuhópum. Það hefur verið gert með skattbreytingum, auknum gjöldum fyrir grunnþjónustu á borð við heilbrigðisþjónustu og menntun, einkarekstri og einkavæðingu almannaþjónustu og breytingum á fjármálakerfinu, breytingum sem oft nást í gegn með þrýstingi fámennra en auðugra hagsmunahópa.

Það er þetta kerfi sem skapar misskiptingu á kostnað almannahagsmuna,“ sagði Katrín.

Og það væri þetta kerfi sem skapaði misvægi milli heimshluta, ágenga nýtingu auðlinda, loftslagsvanda og stríðsátök þannig að sumir heimshlutar eru mun viðkvæmari fyrir átökum og áföllum en aðrir. Það væri þetta kerfi sem gerði það að verkum að ekki hafa verið fleiri á flótta frá lokum síðari heimsstyrjaldar.

„Það er þetta kerfi sem gerir það að verkum að meira að segja á okkar ríka landi telja um 48% heimila sig eiga í erfiðleikum með að ná endum saman.

Það er þetta kerfi sem gerir það að verkum að meira að segja á okkar ríka landi eru um 6.100 börn sem líða efnislegan skort.

Þessu kerfi getum við breytt ef við viljum og þorum.“

Skattkerfið jafni kjörin

En til þess þyrfti nýja ríkisstjórn sem viðurkenndi þá staðreynd að auðlindir okkar eru sameign okkar allra og það er eðlilegt að þeir sem fá leyfi til að nýta þær greiði eðlilegt gjald fyrir þau afnot.

Það þyrfti ríkisstjórn sem viðurkenndi að skattkerfið á að nýta til að jafna kjörin, bæði tekjur af vinnu og fjármagni.

Einnig þyrfti ríkisstjórn sem ekki legði auknar skattbyrðar á lágtekjufólk með því að hækka virðisaukaskatt á matvæli, heldur kortlegði hvar fjármagnið er að finna og skattleggur það – fremur en að seilast í vasa launþega á Íslandi.

„Og um leið og við jöfnum kjörin þá jöfnum við líka aðstæður fólks því þessar tekjur geta skipt sköpum í okkar sameiginlegu verkefni; nýjan Landspítala, gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi, háskóla og rannsóknir, framhaldsskóla fyrir alla, örorkubætur sem uppfylla framfærsluviðmið og mannsæmandi ellilífeyri þannig að fólk geti lifað góðu lífi af sínum tekjum og tekið þátt í vinnumarkaðnum og samfélaginu eins lengi og hugur þess stendur til, samfélaginu og því sjálfu til hagsbóta,“ sagði Katrín meðal annars.

Hver rannsóknin á fætur annarri sýndi að niðurskurðarstefnan sem ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar byggðist á veldur meiri skaða en ávinningi. „Það þarf öfluga grunnþjónustu og aukinn jöfnuð til að tryggja velsæld almennings og almenna hagsæld, Fyrir því eru ekki einungis réttlætisrök heldur líka efnahagsleg rök.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert