Sarabía bar sex lömbum

Ærin Sarabía með lömbin sín sex og bændurnir Mattías og …
Ærin Sarabía með lömbin sín sex og bændurnir Mattías og Hafdís. Skjáskot/Bændablaðið

Ærin Sarabía í Húsavík í Steingrímsfirði á Ströndum bar sex sprækum lömbum í byrjun maí. Um er að ræða þrjú hrútlömb og þrjár gimbrar. Á bænum búa bændurnir Hafdís Sturlaugsdóttir og Matthías Sævar Lýðsson.

Fjallað er um málið í nýjasta tölublaði Bændablaðsins. „Þetta gekk vel,“ sagði Hafdís í samtali við blaðið. „Þau voru öll spræk er þau komu í heiminn.“

Hafdís telur að þetta kunni að einhverju leyti að skýrast af því að þau eru með fé í sínum stofni sem hafa svokallað þokugen sem veldur ofurfrjósemi.

Ærin sem bar lömbunum sex heitir Sarabía eftir teiknimyndapersónu úr Konungi ljónanna. Barnabarn þeirra Hafdísar og Matthíasar, Ingvar Þór Pétursson, gaf henni nafnið.

Hafdís segir við Bændablaðið að Sarabía sé afar gæf og komi rakleitt til þeirra til að láta klappa sér ef þau stoppa við garðann. Þau hjón eru með um 450 fjár og var búist við að burði á bænum lyki í síðustu viku. Megnið er tvílembt, en einar fjórar fjórlembdar.

Hér má lesa viðtalið í  heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert