Töluð 23 tungumál í Fellaskóla

Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri voru viðstödd …
Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri voru viðstödd afhjúpun Tungumálaregnbogans í Fellaskóla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölmenningu var fagnað í Fellaskóla í dag með afhjúpun Tungumálaregnbogans en á listaverkið eru rituð heiti lita á öllum þeim tungumálum sem töluð eru í Fellaskóla. Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri voru viðstödd athöfnina en Lilja er gamall nemandi skólans. 

Í upphafi athafnar ávarpaði Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir, skólastjóri Fellaskóla, fjöldann og kynnti verkið. „Við erum afskaplega stolt af því fjölmenningarsamfélagi sem okkar skólasamfélag er og er listaverkinu ætlað að vísa til þess auðs sem í fjölbreytileikanum felst. Sjónum er sérstaklega beint að þeim auði sem felst í tungumálakunnáttu nemenda og starfsmanna skólans en í skólanum eru töluð um tuttugu og þrjú tungumál.“

Nemendur Fellaskóla við afhjúpun Tungumálaregnbogans.
Nemendur Fellaskóla við afhjúpun Tungumálaregnbogans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá ræddu Lilja Alfreðsdóttir og Dagur B. Eggertsson við nemendur. Lilja rifjaði upp skólaárin í Fellaskóla en sjálf var hún í nemendaráði skólans og kynntist Degi á þeim tíma en hann var þá í nemendaráði Árbæjarskóla. Lilja hvatti nemendur til að njóta þess að vera í skólanum, taka virkan þátt í félagsstörfum og íþróttum.

„Minningar mínar frá þessum skóla eru frábærar. Mér finnst ég eiginlega alltaf vera í hlutverki formanns nemendafélags Fellaskóla. Það er alltaf eitthvað sem kemur upp sem minnir mig á þennan tíma.“ Þá sagði Dagur að Fellaskóli væri í fararbroddi þegar skoðaðar væru tölur yfir það hvar krökkum fer hraðast fram í grunnskólakerfinu, ekki bara í Reykjavík heldur á öllu landinu.

Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, ræddi við nemendur.
Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, ræddi við nemendur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

mbl.is náði tali af þeim Lilju og Degi en báðum þótti þeim verkið afar fallegt. „Fellaskóli er frábær skóli, héðan á ég yndislegar minningar og hér er toppfólk,“ sagði Lilja. Þá bætti Dagur við að þegar fram líður verði það nánast regla að utanríkisráðherra komi úr Fellaskóli vegna fjölda þeirra tungumála sem töluð eru þar á degi hverjum. „Þetta er frábær undirbúningur fyrir utanríkisráðherra. Fellaskóli er málið.“

Þeir nemendur sem komu að gerð verksins.
Þeir nemendur sem komu að gerð verksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir, skólastjóri Fellaskóla, var ánægð með daginn og heimsókn utanríkisráðherra og borgarstjóra. „Þetta var frábær heimsókn og ég er svo ánægð og stolt af listaverkinu.“ Nemendur hafa unnið að verkinu frá því í mars en það er Gréta S. Guðmundsdóttir, myndmenntakennari skólans, sem hafði umsjón með því. Verkið er í sífelldri þróun þar sem nýir nemendur bætast reglulega við skólann og þar með ný tungumál. „Við vonum auðvitað að verkið stækki og dafni og verði risastórt á endanum.“

Afhjúpun Tungumálaregnbogans.
Afhjúpun Tungumálaregnbogans. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert