Íbúðafrumvarp hækki fasteignaverð

Miðbærinn.
Miðbærinn. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrirhuguð fjölgun leiguíbúða á markaði með frumvarpi Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, um almennar félagsíbúðir mun að einhverju leyti mæta uppsafnaðri þörf fyrir leiguhúsnæði og jafnvel draga úr raungildi leiguverðs yfir tíma en að sama skapi er líklegt að auknir opinberir styrkir til nýbygginga og kaupa á húsnæði, samhliða umtalsverðri hækkun húsaleigubóta sem áformuð er skv. öðru frumvarpi Eyglóar, muni leiða til hækkunar á fasteignaverði og leigu.

Þetta kemur fram í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins við frumvarpið.

Til stendur að fjölga íbúðum um 2.300 á næstu fjórum árum verði frumvarpið að lögum en það felur í sér að ríki og sveitarfélög veiti stofnframlög til byggingar og kaupa á almennum íbúðum þar sem leigukostnaður verður í samræmi við greiðslugetu hjá efnaminni fjölskyldum og einstaklingum. Frumvarpið er hjá velferðarnefnd Alþingis til umsagnar en stefnt er að því að afgreiða frumvarpið á Alþingi í þessari viku.

Frétt mbl.is: 2.300 íbúðir á fjórum árum

Í umsögninni kemur fram að breytingarnar kunni þannig að skerða hag þeirra sem eru kaupendur að íbúðum eða leigja á almennum markaði utan félagslega kerfisins. „Einnig er ástæða til að benda á að hætta er á að opinbert styrkjakerfi af þessum toga getur stuðlað að óheppilega mikilli samþjöppun af félagslegu húsnæði með tilheyrandi félagslegum vandamálum þegar stuðningurinn beinist að framboðshliðinni þar sem ákveðin hagkvæmni mun felast í því fyrir byggingar- og rekstraraðila íbúðanna,“segir í umsögninni.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Loks segir þar að almennt sé ekki talið heppilegt að hið opinbera hafi mikil afskipti eða beiti miklum inngripum á húsnæðismarkaði fremur en á öðrum mörkuðum hagkerfisins, nema þá helst til að mæta tímabundnum markaðsbresti í afmörkuðum tilgangi.

„Almennt geta opinber afskipti af markaðshagkerfinu haft í för með sér bjögun á forsendum ákvarðanatöku, að skekkja myndast í samkeppnisskilyrðum fyrirtækja og atvinnugreina og að röskun verði á hagkvæmustu nýtingu aðfanga. Miklir opinberir styrkir til húsnæðismála geta t.d. leitt til þess að einstaklingar eða fjölskyldur búi í kostnaðarsamara og stærra húsnæði en hagkvæmara væri. Reynslan og rannsóknir hafa einnig leitt í ljós að í mörgum tilvikum verður útkoma opinberra ráðstafana á þessu sviði ekki eins einhlít og gert var ráð fyrir,“ segir í umsögninni.

Stuðningur stjórnvalda nær illa markmiði sínu

Viðskiptaráð Íslands tekur undir þessi sjónarmið fjármála- og efnahagsráðuneytisins í umsögn sinni við frumvarpið og telur þessi áhrif þurrka að fullu út þann litla mögulega ávinning sem gæti hlotist af frumvarpinu. Segir þar að húsnæði sé langtímafjárfesting og skyndilausnum verði ekki beitt til að bæta aðstæður ungra og efnaminni einstaklinga.

Viðskiptaráð bendir á að í úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi m.a. komið fram að stuðningur stjórnvalda vegna húsnæðismála væri afar flókinn og hvetji til of hárrar skuldsetningar og umframeyðslu heimila.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Viðskiptaráð Íslands spá hækkun á fasteignaverði …
Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Viðskiptaráð Íslands spá hækkun á fasteignaverði nái frumvarpið fram að ganga. mbl.is/Golli

Þar hafi jafnframt komið fram að stuðningur stjórnvalda í húsnæðismálum næði illa markmiði sínu um aðstoð við efnaminni fjölskyldur. Leggur sjóðurinn til að stjórnvöld afnemi vaxtabætur með öllu og hjálpi efnaminni einstaklingum þess í stað með beinum fjárstuðningi.

Í umsögn Viðskiptaráðs furðar ráðið sig á að ekkert tillit sé tekið til úttektar AGS við vinnslu frumvarpsins. Íslensk stjórnvöld hafi þar verið gagnrýnd fyrir að starfrækja þrjú ólík stuningskerfi á húsnæðismarkmiði. Auk vaxtabótakerfisins útdeila stjórnvöld húsaleigubótum og veita jafnframt húsnæðislán í gegnum Íbúðalánasjóð.

Segir Viðskiptaráð að AGS meti það svo að fyrirkomulagið geri árangur stuðningskerfanna óljósan, auki flækjustig og skapi meiri raskanir á húsnæðismarkaði en ef eitt heildstætt kerfi væri til staðar.

„Í stað þess að leitast við að fækka stuðningskerfunum er lagt til að þeim sé fjölgað enn frekar með því að innleiða fjórða stuðningskerfið, almennar íbúðir sem á að byggja og leigja út af hálfu hins opinbera. Að mati ráðsins eru engin gild rök fyrir slíkri breytingu,“ segir í umsögninni.

Aðrar og skynsamlegri leiðir færar

Viðskiptaráð segir fjölmargar skynsamlegri leiðir í boði þegar kemur að því að auðvelda efnaminni fjölskyldum að kaupa eða leigja eigið húsnæði. Þær eru almennar og styðja við eðlilega virkni húsnæðismarkaðarins í stað þess að fela í sér aukin opinber afskipti.

Frétt mbl.is: Breyting í átt að lægra verði

Nefnir ráðið endurbætur á skattkerfinu annars vegar og einföldun regluverks hins vegar. „Tækifæri eru til að auka skilvirkni skattheimtu á fasteignamarkaði. Draga ætti úr misræmi fasteignaskatta, afnema stimpilgjöld vegna fasteignaviðskipta og færa gjaldstofn fasteignaskatts í auknum mæli á landsvæði í stað bygginga,“ segir í umsögn ráðsins sem bendir jafnframt á tillögur sínar að aðgerðum til að draga úr kostnaði við byggingu nýs húsnæðis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert