Miðbær númer tvö á höfuðborgarsvæðinu

Hér sést hvar hið nýja hverfi mun rísa. Hinu meginn …
Hér sést hvar hið nýja hverfi mun rísa. Hinu meginn við Reykjanesbrautina er svo byrjuð uppbygging á gamla hesthúsasvæðinu. Mynd/201 Smári

Um næstu áramót verður hafist handa við nýtt 620 íbúða hverfi fyrir sunnan Smáralindina í Kópavogi. Hefur verkefnið fengið heitið 201 Smári og eru það Reginn fasteignafélag og Smárabyggð ehf. sem standa á bak við það. Ingvi Jónasson hjá Klasa ehf, sem er þróunaraðili verkefnisins, segir að hugmyndin sé að gera nýtt miðsvæði sem verði í raun miðbær númer tvö á höfuðborgarsvæðinu á eftir gamla miðbæ Reykjavíkur.

Frétt mbl.is: Reisa 620 íbúðir í Smáranum

Ingvi segir að horft sé til þess að á þessu nýja miðsvæði verði möguleiki á því að fækka bílum með því að gefa íbúum kost á að sækja alla þjónustu í nærumhverfi sitt. Vísar hann til þess að margvísleg þjónusta og verslun sé þegar í Smáralindinni, í turnunum tveimur og þá séu verslanir á Smáratorgi.

Til viðbótar við það er gert ráð fyrir að einhverjar verslanir og þjónusta verði á jarðhæð í nýja hverfinu. „Það er verið að búa til nútímaborgarhverfi með verslun og þjónustu að hluta til á jarðhæðum,“ segir Ingvi.

Á nýja svæðinu er gert ráð fyrir 620 íbúðum og …
Á nýja svæðinu er gert ráð fyrir 620 íbúðum og einhverjum verslunum eða þjónusturýmum á jarðhæð. Ingvi segir að þarna sé horft á að mynda miðbæ númer tvö á höfuðborgarsvæðinu þar sem íbúar hafi alla þjónustu í nærumhverfinu og þurfi síður á bíl að halda. Teikning/201 Smári

Í skipulagi svæðisins kemur fram að gert sé ráð fyrir 1,1 til 1,2 bílastæðum á hverja íbúð, en það er nokkuð minna en almennt tíðkast. Ingvi segir að stór hluti bílastæðanna sé hugsaður neðanjarðar, en að einhver stæði verði einnig ofan jarðar. Þá verði líklega hægt að samnýta einhvern hluta þeirra fjölmörgu stæða sem séu á svæðinu, t.d. við Smáralind.

Í dag er Smáralind og svæðið í kring ekki skipulagt sem miðstöð fyrir almannasamgöngur þó að nokkrar leiðir strætó liggi þar um. Ingvi segir að skipuleggjendur svæðisins og aðstandendur Smáralindar séu meðvitaðir um stöðuna og að mikill vilji sé til að bæta almenningssamgöngur á svæðinu. Þá nefnir hann að samkvæmt svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins eigi svokölluð borgarlína, eða samgönguás, að liggja hjá hverfinu. Segir hann að í raun sé horft til þess að svæðið verði miðbær númer tvö á höfuðborgarsvæðinu miðað við samgöngur og uppbyggingu íbúða, verslana og þjónustu.

Hinu megin við Reykjanesbrautina hófust verktakar handa í vetur við að undirbúa nýtt hverfi á gamla hesthúsasvæðinu sem er nú fyrir norðan vegastæði nýs Arnanesvegs sem liggja á alla leið upp að Salalaug. Aðspurður um tengingar á milli hverfanna segir Ingvi að það sé ekki á könnu 201 Smára, en að mikill vilji sé fyrir að ná þar tengingu á milli. Í skipulagi Kópavogs sé horft á að tengja hverfin saman meðal annars með undirgöngum og brú fyrir gangandi, en slíkt verði að koma í ljós með tíð og tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert