Æfir í sex klukkustundir á dag

Björgvin Karl Guðmundsson sigraði Evrópuleikana í crossfit um helgina og …
Björgvin Karl Guðmundsson sigraði Evrópuleikana í crossfit um helgina og hefur tryggt sér sæti á heimsleikunum sem fram fara í Kaliforníu í júlí. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég borða hreina fæðu, fimm máltíðir á dag og æfi í um sex klukkustundir,“ segir Björgvin Karl Guðmundsson sem tryggði sér sæti á heimsleikunum í crossfit með sigri í karlaflokki á Evrópuleikunum sem fram fóru í Madrid um helgina.

Björgvin Karl tók fyrst þátt á Evrópuleikunum fyrir fjórum árum. „Markmiðið var að komast á heimsmeistaramótið, það er í topp fimm, en ég var samt alltaf að horfa á þetta út frá því að vinna á mótinu.“ Árið 2014 hafnaði Björgvin Karl í þriðja sæti, árið 2015 í öðru sæti og segir hann því að nú hafi verið tími til kominn til að sigra á mótinu.

Annie Mist er frábær fyrirmynd 

Spurður um velgengi Íslendinga í crossfit-heiminum segir Björgvin Karl að Annie Mist sé frábær fyrirmynd sem hafi í raun og veru kynnt Íslendinga og heimsbyggðina fyrir crossfit. „Ég held að hugarfar Íslendinga eigi einnig stóran þátt í velgengni þeirra, við erum með höfuðið á réttum stað.“ Þá segir hann Annie Mist hafa kynnt Íslendinga tiltölulega snemma fyrir íþróttinni og því séu hér góðar stöðvar og fólk með mikla reynslu. „Erlendir þjálfarar sýna okkur Íslendingunum mikinn áhuga.“

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir sigraði í kvennaflokki á Evrópuleikunum í crossfit …
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir sigraði í kvennaflokki á Evrópuleikunum í crossfit og hefur einnig tryggt sér sæti á heimsleikunum. mbl.is

Ólympískar lyftingar í uppáhaldi 

Björgvin Karl æfir í um fimm til sex klukkustundir á degi hverjum og hefur því lítinn tíma til að sinna öðrum störfum. Hann æfir í crossfit-stöðinni Hengill í Hveragerði og þjálfar einnig crossfit. Uppáhaldsæfingarnar hans eru ólympískar lyftingar og fimleikaæfingar en hann segir að lykilinn að velgengni í íþróttinni sé að stunda æfingar af kappi. „Þetta snýst um að vera tilbúinn í hvað sem er í rauninni hvenær sem er.“

Á næstu dögum ætlar Björgvin Karl að ná sér niður eftir Evrópuleikana en mun svo byrja strax í næstu viku að æfa sig fyrir heimsleikana. „Við munum svo trúlega fara um þremur vikum fyrir heimsleikana út til Kaliforníu til að venjast hitanum, synda í sjónum og gera æfingar sem erfitt er að gera á Íslandi.“

Tvöfaldur íslenskur sigur 

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir sigraði í kvennaflokki á leikunum en ásamt henni tryggðu þær Annie Mist Þórisdóttir og Þuríður Erla Helgadóttir sér einnig sæti á heimsleikunum. Þá tryggði íslenska crossfit liðið CrossFit XY sér einnig sæti á leikunum.

Katrín Tanja Davíðsdóttir sem varð heimsmeistari í crossfit árið 2015 er nú búsett í Boston í Bandaríkjunum og tryggði sér því sæti á heimsleikunum á þeim svæðisleikum sem haldnir eru þar.

Frétt mbl.is - Tvöfaldur íslenskur sigur í Madrid

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert