Allt plast flokkað á Seltjarnarnesi

Nú skila um 1–2 kíló af því plasti, sem fellur …
Nú skila um 1–2 kíló af því plasti, sem fellur til hjá íbúum, sér flokkað í endurvinnslufarveg. Markmið verkefnisins er að auka magnið í 15 kíló á íbúa á Seltjarnarnesi. Morgunblaðið/Styrmir Kári

Skapaðu framtíðina er tilraunaverkefni á vegum Sorpu og Seltjarnarnesbæjar um söfnun og endurvinnslu á öllum plastumbúðum sem falla til á heimilum í sveitarfélaginu.

„Við erum alltaf að reyna að fá meira efni í endurvinnslu og leitum leiða til að gera það á sem hagkvæmastan hátt. Nú hefur plast verið mikið í umræðunni og við erum að finna leiðir til að ná því frá þannig að það fari ekki í urðun með almenna sorpinu,“ segir Karen Hulda Kristjánsdóttir, sérfræðingur í upplýsingamiðlun hjá Sorpu.

Árlega fara um 30 kíló af plasti í urðun frá hverjum íbúa á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt rannsókn Sorpu á heimilisúrgangi. Nú skila um 1–2 kíló af því plasti, sem fellur til hjá íbúum, sér flokkað í endurvinnslufarveg. Markmið verkefnisins er að auka magnið í 15 kíló á íbúa á Seltjarnarnesi.

Skapaðu framtíðina er tilraunaverkefni á vegum Sorpu og Seltjarnarnesbæjar um …
Skapaðu framtíðina er tilraunaverkefni á vegum Sorpu og Seltjarnarnesbæjar um söfnun og endurvinnslu á öllum plastumbúðum sem falla til á heimilum í sveitarfélaginu. www.mats.is

33 pokar eftir fyrstu losun

„Með sérsöfnun á plasti er í raun og veru verið að auka umferð um hverfin og fjölga tunnum á heimili. Þessu fylgir kostnaður, pláss og meiri áhætta með aukinni umferð í hverfum. Þess vegna vildum við reyna að nota aðra leið til að ná plastinu frá.“

Íbúar Seltjarnarness fá afhenta plastpoka sem ætlaðir eru undir hreinar plastumbúðir. Pokarnir eru síðan settir í gráu tunnurnar sem sorphirðubílar sjá um að tæma. Pokarnir eru síðan flokkaðir frá almennu sorpi á móttökustöð Sorpu í Gufunesi.

Vika er síðan verkefnið hófst og voru tunnurnar tæmdar í fyrsta skipti síðastliðinn mánudag. „Þá komu þrjátíu og þrír pokar með plasti í sem er rosa flott eftir eina viku. Fólk er greinilega viljugt í að taka þátt. Við viljum að fólk nýti hvern poka vel og raði plastinu saman til að sem mest komist fyrir í hverjum poka,“ segir Karen Hulda.

Plastumbúðir eru til dæmis sjampóbrúsar.
Plastumbúðir eru til dæmis sjampóbrúsar. mbl.is

Plastið sent til Svíþjóðar í endurvinnslu

Verkefnið stendur yfir í eitt ár og er markmið þess að meta gæði og magn plasts sem berst frá sveitarfélaginu til endurvinnslu og kostnað sem fellur til vegna meðhöndlunar þess. „Ef þetta gengur vel þurfum við að gera ráðstafanir í móttökustöðunni hjá okkur til þess að geta haldið þessu áfram og stækkað verkefnið fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Þetta er tilraun til að sjá hvernig þetta virkar en við erum bjartsýn um framhaldið.“

Sorpa sendir svo allt það plast sem móttökustöðvum berst til Svíþjóðar þar sem það er endurunnið. „Eitthvað er brennt í orkuvinnslu, annað er sent í endurvinnslu og nýtt til dæmis í garðhúsgögn úr plasti eða bílainnréttingar sem gerðar eru úr endurunnu plasti.“

Þá bendir Karen Hulda á að einnig sé mikilvægt að fólk hugi að plastnotkun sinni og reyni að minnka hana með því að nota sem minnst af einnota umbúðum, nota margnota innkaupapoka, fjölnota dollur til að geyma dót í og kaupa minna af plasti. „Plast er gott efni í margt en það þarf ekki að vera alls staðar.“

Starfsmenn Sorpu að störfum.
Starfsmenn Sorpu að störfum. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Íbúar taka vel í verkefnið

Bjarni Torfi Álfþórsson, bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi, er ánægður með þau viðbrögð sem verkefnið hefur fengið hjá íbúum bæjarins. „Það er auðvitað einn og einn sem vill gera þetta öðruvísi sem er skiljanlegt í svona stórum hópi en ég held að flestir sjái nú ljósið í þessu. Þetta er einföld og góð leið til þess að nálgast plastið án þess að bæta við þriðju tunnunni,“ segir Bjarni Torfi.

Hann segir önnur sveitarfélög eins og Garðabæ og Kópavog gjarnan hafa viljað vera með í verkefninu en að Seltjarnarnes sé hæfilegt að stærð fyrir tilraunaverkefni sem þetta en síðar sé hægt að bera saman hvort fyrirkomulagið henti betur, þetta eða það sem notað er í Reykjavík.

Frétt mbl.is - Endurvinnsla aukin á Seltjarnarnesi 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert