Handflokka þúsundir taskna

Framkvæmdir við nýja salinn hófust í nóvember á síðasta ári, …
Framkvæmdir við nýja salinn hófust í nóvember á síðasta ári, skömmu eftir að flugfélögin höfðu tilkynnt þá ákvörðun að taka breiðþotur í notkun. Handflokka þarf farangur fram að helgi.

Starfsmenn flugþjónustufyrirtækja á Keflavíkurflugvelli hafa handflokkað töskur flugfarþega frá því síðdegis í gær á meðan nýtt og betrumbætt farangursflokkunarkerfi er tekið í notkun. Flokkunin er sögð hafa gengið vel en um 7.000 töskur fara um kerfi Isavia á sólahring þessa dagana.

Sjálfvirkt farangursflokkunarkerfi var fyrst tekið í notkun á flugvellinum fyrir um tíu árum en fram að því var allur farangur handflokkaður. Að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Isavia, er nýja kerfið framför frá því.

Nýtt 3.000 fermetra hús var byggt um nýja flokkunarkerfið en með því er meðal annars betri aðstaða til að flokka farangur í tengiflug sem hefur aukist mikið en einnig fyrir farangursgáma breiðþotna líkt og þeirra sem Icelandair og Wow Air eru að taka í notkun.

Farþegar mæti áfram fyrr en venjulega

Á meðan unnið er að því að taka kerfið í notkun þarf hins vegar handflokka farangurinn sem fer um flugstöðina aftur. Það hófst kl. 18 í gær en Guðni segir að nýja kerfið eiga að vera til reiðu fyrir morgunflug á laugardag. Handflokkunin hafi gengið vel.

„Við báðum farþega um að koma tímanlega, svona þremur tímum fyrir flug. Það gekk vel. Farþegar komu snemma og þá dreifist álagið auðvitað yfir lengra tímabil í flokkuninni. Það var algert lykilatriði að farþegar mættu tímanlega og þá gekk þetta allt mjög vel,“ segir Guðni en farþegar eru áfram hvattir til að mæta þremur tímum fyrr í dag, morgun og föstudag.

Flugafgreiðsluaðilarnir IGS og Airport Associates voru einnig vel mannaðir til að sjá um flokkunina.

„Það voru harðsnúnir farangursflokkunarsérfræðingar sem voru þarna í morgun,“ segir Guðni.

Búast við fimm milljónum taskna á þessu ári

Magn farangurs sem fer um Keflavíkurflugvöll hefur aukist í samræmi við aukinn fjölda ferðamanna. Eins og áður segir fara um 7.000 töskur um flokkunarkerfið þessa dagana en til samanburðar var stærsti dagur ársins 2013 um 6.000 töskur.

Gert er ráð fyrir því að í júlímánuði þegar mest gengur á verði á bilinu tíu til tólf þúsund töskur flokkaðar á Keflavíkurflugvelli á hverjum degi. Þá muni tæplega fimm milljónir taskna fara um flokkunarkerfið í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert