Segir búvörusamninginn stórslys

Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, telur að búvörusamningurinn sé „stórslys“ frá umhverfisfræðilegu sjónarmiði og örugglega einn versti gjörningur stjórnvalda í umhverfismálum um áratugaskeið.

Þetta kom fram í máli hans á Alþingi í dag. Hann óskaði eftir sérstakri umræðu um búvörusamningurinn, sem liggur nú fyrir þinginu, með tilliti til umhverfis- og náttúruverndar.

Róbert sagði það vera „fullkomlega glórulaust“ að samþykkja samning sem leiði til fjölgunar sauðfjár á Íslandi. Í fyrsta lagi væri enginn markaður fyrir slíka aukningu á framleiðslunni. Í öðru lagi væri fjölgunin óháð umhverfislegum aðstæðum. Væri aðferðafræðin beinlínis fjandsamleg umhverfinu. 

Hann sagðist sjálfur ekki hafa komið með beinum hætti að umfjöllun þingsins um búvörusamningana, en þó lagt fram nokkrar spurningar en ekki fengið fullnægjandi svör við þeim.

„Þetta er auðvitað gríðarlega stórt mál, miklir hagsmunir, gríðarlegir fjármunir til mjög langs tíma og maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort ekki sé eðlilegt að frekari umræða fari fram um slíka framkvæmd og þann undirbúning sem býr að baki, sérstaklega í ljósi þess að nú nálgast kosningar, það eru sex mánuðir þangað til gengið verður til kosninga,“ sagði Róbert.

Hann velti því jafnframt  fyrir sér hvort ekki væri full ástæða til þess að bera samninginn undir kjósendur áður en þingið samþykkti hann. Það hlyti að teljast eðlileg krafa og í hag þeirra sem bera málið fram að leggja það undir kjósendur. 

Það væri ekki til farsældar fallið að fara fram með málið í pólitískum ágreiningi eða þeirra gagnrýni sem samningarnir hefðu fengið meðal almennings og hagsmunaaðila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert