Eyruglan gleymdi sér á kvisti

Eyruglan hefur forðast myndavélar í rúm sjö ár en gleymdi …
Eyruglan hefur forðast myndavélar í rúm sjö ár en gleymdi sér um stund og það nægði Má. Ljósmynd/Már Jóhannsson

Ljósmyndarar geta ekki alltaf gengið beint að viðfangsefninu og þegar myndað er úti í náttúrunni þurfa þeir oft að sýna mikla biðlund. „Ég hef beðið í nær sjö ár eftir því að ná almennilegri, birtingarhæfri mynd af þessari uglu, sem ég held að sé eyrugla, en ég er ekki fuglafræðingur,“ segir Már Jóhannsson.

Már starfar sem bókhaldari og hefur verið áhugaljósmyndari frá æsku. „Sem unglingur um fermingu var ég undir handleiðslu Jóhannesar Þórðarsonar, yfirlögregluþjóns á Siglufirði, og sótti námskeið hjá honum í æskulýðsheimilinu, lærði að taka myndir, framkalla og stækka,“ rifjar hann upp. Hann segist fyrst og fremst hafa fangað umhverfið, byggingar og fleira lengi vel en í mörg ár hafi hann veitt fuglum æ meiri athygli og tekið margar fuglamyndir. „Ég mynda annars allt sem vekur athygli mína,“ segir hann.

Barnabörnin bentu á hana

Fjölskyldan á sumarbústað á Suðurlandi og þar hefur uglan verið á sveimi. „Barnabörnin vöktu athygli okkar á henni og hvæsinu í henni,“ segir Már, sem náði fyrst að mynda hana í kjarri í júlí 2009. Hann segir að uglan hafi verið á svæðinu allar götur síðan, nágrannarnir kannist líka við hana, en hún hafi haldið sig frá myndavélum. „Við verðum einkum vör við hana á vorin, það eru óhljóð í henni og hún er þá greinilega að fæla fugla af hreiðrum, en svo hverfur hún á haustin. Þó að hún sé vel sýnileg lætur hún ekki mynda sig og það var alger tilviljun að ég náði myndinni.“

Hjónin voru sest við matarborðið um sjöleytið síðastliðið laugardagskvöld þegar óvenjulegt hljóð truflaði kyrrðina. „Konan leit út um gluggann og sagði að uglan væri sest á fuglahúsið. Ég rauk upp, greip myndavélina á stofuborðinu og náði að smella af fjórum myndum áður en uglan áttaði sig á myndatökunni og flaug í burtu um 10 til 15 sekúndum síðar.“

Már setti fuglahúsið niður fyrir um áratug en segir að enginn fugl hafi sest í það og það hafi drabbast niður. „Hún var greinilega að athuga hvort fugl væri í húsinu og það varð mér til happs,“ segir hann.

Myndavélin er aldrei fjarri en Már áréttar að það sé eins og uglan átti sig á því. „Ég held að uglan sé ein síns liðs. Við höfum að minnsta kosti aldrei séð tvær eða fleiri uglur á flugi hérna á sama tíma.“

Miklar sveiflur í stofninum

Eyrugla fannst fyrst verpandi hérlendis árið 2000, í sumarbústaðalandi á Suðurlandi, að sögn Jóhanns Óla Hilmarssonar fuglafræðings. Hún hefur samt ekki sést reglulega síðan. Þannig hefur hann vitað um sjö pör með unga sumarið 2011 en sá enga í fyrra. Hins vegar hefur hann heyrt um nokkur tilfelli núna. „Það virðast vera sveiflur í þessu eins og hjá branduglunni,“ segir hann og bendir á að þær lifi einkum á músum. „Það geta verið sveiflur í músastofninum sem valda þessu.“

Eyrugla hefur meðal annars sést í Vestmannaeyjum, á Norðurlandi og Austurlandi. Hún á auðvelt með að fela sig í skógum, hefur ekki verið merkt og ekki er vitað hvort hún fer á veturna og þá hvert. Helstu einkennin eru appelsínugul augu og stór eyru, sem hún sýnir þegar hún felur sig eða er í árásarham. Hún er mjög lík branduglu, sem er með gul augu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert