Í farbanni eftir stórfellt smygl

Lög­regl­an fylgd­ist með ferðum bíls­ins eft­ir að hann kom með …
Lög­regl­an fylgd­ist með ferðum bíls­ins eft­ir að hann kom með Nor­rænu til lands­ins í september á síðasta ári, hlaðinn fíkni­efn­um. mbl.is/Pétur Kristjánsson

Hæstiréttur staðfesti í dag farbann yfir manni sem átti aðild að stórfelldu fíkniefnalagabroti þegar flutt voru inn samtals 19,4 kíló af amfetamíni og 2,6 kíló af kókaíni frá Hollandi. Manninum er gert að sæta farbanni þar til dómur fellur í máli hans en í síðasta lagi til þriðjudagsins 28. júní 2016.

Fjórir karlmenn voru ákærðir fyrir aðild sína að málinu. Einn þeirra ók bíl frá Hollandi til Danmerkur þaðan sem hann tók Norrænu til Seyðisfjarðar í september 2015. Fíkni­efni voru fal­in í sér­út­bún­um geymslu­hólf­um und­ir fram­sæt­um og í miðju­stokk bif­reiðar­inn­ar sem var af gerðinni Volkswagen Tour­an. 

Bíllinn var skilinn eftir í skammtímabílastæði við Keflavíkurflugvöll og þremur dögum síðar komu tveir menn með flugi til Keflavíkur. Ók annar þeirra bílnum til Reykjavíkur en hinn á eftir honum á öðrum bílaleigubíl. Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá 31. maí sl. segir að grunur leiki á um að hlutverk mannsins, sem var settur í farbann, hafi verið að fjarlægja fíkniefnin úr bílnum og afhenda þau.

Ákærði þykir vera undir sterkum grun um aðild að broti sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Að mati ákæruvalds þyki meint aðild ákærða mikil en hún sé talin tengjast skipulagningu og flutningi fíkniefnanna hingað til lands,“ segir í úrskurði héraðsdóms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert