Kraftaverk að ekki fór verr

Vegurinn upp Reynisfjall liggur í hlíðinni ofan við Vík. Á …
Vegurinn upp Reynisfjall liggur í hlíðinni ofan við Vík. Á myndinni má sjá hvernig hann hlykkjast upp hlíðina, en bíllinn fór niður þar sem fyrsti hlykkurinn er. Ljósmynd/Jónas Erlendsson

Maðurinn sem var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í gær eftir bílslys í Reynisfjalli við Vík í Mýrdal er á gjörgæslu en ætti að útskrifast þaðan í dag og fara á almenna deild. Í raun er kraftaverk að ekki fór verr, en bíll mannsins valt niður um 100 metra hlíð í Reynisfjalli og kastaðist maðurinn út á miðri leið. Þetta segir Magnús Páll Sigurjónsson, rannsóknarlögreglumaður hjá embætti lögreglustjórans á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.

Magnús segir manninn ásamt samferðafólki sínu hafa verið að keyra upp slóðann í gær þegar þau festu bílinn, en vegurinn er malarvegur. Endaði það með að þau þurftu að snúa bílnum við og fóru þrjú úr bílnum meðan maðurinn ætlaði að snúa honum við. Ekki vildi betur til en að hann bakkaði bílnum út af og valt hann niður hlíðina.

Magnús segir bílinn hafa farið 10 til 20 veltur á leiðinni niður um 100 metra leið og á miðri leið hafi maðurinn kastast út úr bílnum. Vitni sögðu manninn hafa lent undir bifreiðinni og bentu áverkar á manninum til talsvert verri meiðsla en raunin var eftir skoðun á Landspítalanum. Segir Magnús að í raun sé um kraftaverk að ræða og að einhver vaki greinilega yfir manninum.

Fólkið var allt ferðafólk og er maðurinn sem slasaðist rétt tæplega fimmtugur.

Slóðinn upp Reynisfjall liggur frá Þjóðvegi 1 rétt ofan við Vík og svo í hlykkjum upp fjallið. Samkvæmt Magnúsi var bíllinn við fyrsta hlykk á leiðinni upp.

Frétt mbl.is: Maðurinn dvelur á gjörgæslu

Frétt mbl.is: Ók eftir vegslóða í Reynisfjalli

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert