Tvær dúxuðu í Flensborg

Guðlaug Agnes Kristjánsdóttir, annar tveggja dúxa Flensborgarskólans í Hafnarfirði.
Guðlaug Agnes Kristjánsdóttir, annar tveggja dúxa Flensborgarskólans í Hafnarfirði. Ljósmynd/Úr einkasafni

Sú óvenjulega staða kom upp við útskrift Flensborgarskólans í Hafnarfirði að tveir nemendur höfðu nærri því sömu meðaleinkunn og teljast þeir því báðir dúxar skólans í ár. Þetta eru þær Guðlaug Agnes Kristjánsdóttir og Sigurlaug Rún Jónsdóttir, en Guðlaug Agnes útskrifaðist með einkunnina 9,65 og Sigurlaug Rún 9,63. Magnús Þorkelsson, skólameistari Flensborgarskólans, segist ekki vita til þess að áður hafi tveir nemendur dúxað samtímis við skólann.

Nýorðin 18 ára og ekkert að flýta sér

„Ég og Sigurlaug vorum svo nálægt að við vorum báðar titlaðar sem dúxar. Það voru bara 0,02 á milli svo þetta var eiginlega sama talan. Allavega ef ég hefði verið fyrir neðan hefði þetta verið dálítið sárt, svo að ég skil þetta.“ Segir Guðlaug Agnes, þegar blaðamaður nær af henni tali. Aðspurð hvort það hafi komið á óvart að dúxa, segir hún svo vera. „Ég nefnilega hélt að ég hefði verið miklu lægri, svo þetta kom skemmtilega á óvart fyrir mig.“

Við útskriftina hlaut Guðlaug fjölda verðlauna fyrir góðan námsárangur, en hún hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í íþróttum, tungumálum, efnafræði, jarðfræði, raungreinum, þýsku, dönsku og stærðfræði, auk þess að hljóta viðurkenningu fyrir skólasókn. Hún segir stærðfræði og þýsku vera sín uppáhaldsfög og þakkar kennurunum fyrir það. „Það er svolítið mikið kennararnir. Ef maður er með skemmtilega kennara verður þetta skemmtilegra.“

Spurð um framhaldið segir Guðlaug líklegt að hún taki sér hlé frá námi og vinni í eitt ár, þó hún ætli sér að sækja um í háskóla til öryggis. Hún þarf ekki að flýta sér mikið, enda nýorðin 18 ára gömul, en hún útskrifaðist á þremur árum, auk þess sem hún hoppaði yfir bekk í grunnskóla.

Í sumar mun Guðlaug starfa í versluninni Zöru í Smáralind og stefnir að því að ferðast innanlands, en síðustu ár hefur hún starfað við sundkennslu hjá Sundfélagi Hafnarfjarðar. „Ég æfði sund í 10 ár. Svo hafði mig alltaf langað svo mikið að prófa að æfa dans svo ég tók sénsinn og ákvað að fara aðeins út fyrir þægindarammann og nú er ég búin að æfa dans í tvö ár. Frekar mikil viðbrigði að fara úr því að æfa sjö sinnum í viku yfir í að æfa tvisvar sinnum í viku, en það er gaman.“ Auk þess að æfa dans, leikur Guðlaug á píanó og hefur því verið önnum kafin í vetur. „Já, þessi önn. Þetta leit ekkert rosalega vel út neitt. Ég átti líka að vera taka próf á píanóið sem heitir miðpróf. En nú er þetta allt búið, svo það er mjög skrítið að vera ekki að gera neitt núna eiginlega.“

Þrátt fyrir miklar annir segist Guðlaug hafa haft gefið sér tíma fyrir félagslíf og segir það vera gott að hafa nóg fyrir stafni. „Mér finnst það eiginlega betra. Þegar ég hef mikið að gera neyðist ég til að skipuleggja mig og neyðist til að hafa einhvern punkt til að klára eitthvað fyrir.“

Sigurlaug Rún Jónsdóttir, annar tveggja dúxa Flensborgarskólans.
Sigurlaug Rún Jónsdóttir, annar tveggja dúxa Flensborgarskólans. Ljósmynd/Úreinkasafni

Nemur stærðfræði á golfstyrk

Sigurlaug Arna segir það alltaf hafa verið markmiðið að dúxa, þó hún hafi ekki endilega búist við því. Hún mun halda út til Bandaríkjanna í haust, þar sem hún hefur nám við Drake University í Iowa á golfstyrk. Hún hefur skráð sig í nám í stærðfræði, sem hún segir sitt uppáhaldsfag. „Já, og efnafræði kannski. Ég er allavega skráð í stærðfræði en svo kemur bara í ljós hvað maður gerir“, segir Sigurlaug, en hún hlaut verðlaun fyrir góðan námsárangur í stærðfræði og raungreinum við útskriftina, auk viðurkenninga fyrir árangur í íþróttafræði, íslensku og þýsku.

Áður en Sigurlaug heldur út í lok ágúst, mun hún starfa við golfkennslu á krakkanámskeiðum, líkt og hún hefur gert síðustu ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert