Endalaus barátta við að sannfæra kjósendur

Odddný hélt fyrstu stefnuræðu sína sem formaður Samfylkingarinnar síðdegis í …
Odddný hélt fyrstu stefnuræðu sína sem formaður Samfylkingarinnar síðdegis í dag. ljósmynd/Samfylkingin

„Kosningabaráttan hefst núna á mánudaginn með 130 daga áætlun um kosningasigur Samfylkingarinnar í haust. Það er bara fyrsti áfanginn. Framundan er hin endalausa barátta við að sannfæra kjósendur um að stefnumál okkar bæta íslenskt samfélag.“ Með þessum orðum hófst stefnuræða nýs formanns Samfylkingarinnar, Oddnýjar G. Harðardóttur.

Heilbrigðismálin í brennidepli

Í stefnuræðu sinni undir lok landsfundar flokksins í dag gerði hún meðal annars heilbrigðiskerfið að umtalsefni sínu. 

„Hrunið og kreppan sem henni fylgdi leiddi óhjákvæmilega til niðurskurðar í heilbrigðismálum, en hnignun heilbrigðiskerfisins hófst því miður löngu fyrir Hrun. Skortur á fjárfestingum og rekstrarfé blasir við hvert sem litið er. Langvinn verkföll lækna og annarra starfsmanna sjúkrahúsa eru sjúkdómseinkenni kerfis sem þarfnast uppbyggingar og umhyggju.“

„Það er einnig sjúkdómseinkenni heilbrigðiskerfisins ef einhver þarf að fresta því að fara til læknis vegna kostnaðar. Sjúklingar eiga ekki að þurfa að taka upp veskið þegar þeir þurfa á læknishjálp að halda. Íslendingar geta ekki og munu ekki sætta sig við lakara heilbrigðiskerfi en nágrannaþjóðir okkar.“

Hvað varðar helstu baráttumál Samfylkingarinnar á komandi mánuðum nefndi Oddný að setja þurfi húsnæðismál Landspítalans í forgang, fjárfesta þurfi í tækjabúnaði sjúkrahúsa, biðlistum þurfi að eyða, byggja þurfi upp hjúkrunarheimili fyrir aldraða og langveika.

Þá segist hún hafna einkavæðingu í heilbrigðismálum. „Við viljum leið samábyrgðar og jöfnuðar,“ sagði Oddný.

Stjórnarskráin komist aftur á dagskrá

Oddný ræddi um nýja stjórnarskrá, ferli sem flokkurinn kom að því að hrinda af stað á síðasta kjörtímabili. 

„Við í Samfylkingunni erum talsmenn alvöru lýðræðis. Við höfum sýnt það í verkum og flokksstarfi, með kosningakerfi okkar og vali á frambjóðendum og efnt til formannskjörs þar sem allir skráðir félagar áttu kost á að taka þátt í. Við þurfum að þróa áfram leiðir til að virkja beint lýðræði og samtal við alla þá sem vilja taka þátt í umræðunni og leggja sitt að mörkum. Það ferli hófum við með endurskoðun stjórnarskrárinnar á síðasta kjörtímabili. Þar hófum við lýðræðisumbætur sem við viljum ljúka og tryggja að þjóðin geti átt beina aðkomu að öllum stórum hagsmunamálum.“

Panamaskjölin tækifæri til breytinga

Oddný segir að með uppljóstrunum Panama-skjalanna hafi skapast tækifæri til að uppræta „kerfi blekkingar.“

„Með Panamaskjölunum komst upp um Íslendinga sem höfðu nýtt sér skattaskjól og sumir þeirra hafa væntanlega talið sér vera þar óhætt, í skjóli fyrir skattinum á Íslandi. Við eigum að nýta það tækifæri sem Panamaskjölin gefa okkur til að uppræta kerfi blekkingar og spillingar sem búið hefur verið til fyrir þá sem vilja komast hjá því að greiða sinn hlut til samfélagsins.“

„Því það er okkar stefna að um leið og við sköpum öryggi velferðarsamfélagsins, gerum við þá kröfu að allir taki þátt og skili sínu til baka svo þeir megi búa áfram í góðu samfélagi.“

Að lokum óskaði Oddný eftir góðu samstarfi við alla flokksmenn. 

„Ég vil að lokum óska eftir góðu samstarfi við ykkur öll, við að vinna jafnaðarstefnunni framgang. Það að Samfylkingin rétti úr kútnum er tilhlökkunarefni fyrir alla þá sem þrá að finna baráttunni fyrir jafnrétti og réttlæti greiðan farveg.“

„Ég mun leggja mig alla fram með ykkur og nýkjörnum forystumönnum flokksins, sveitarstjórnarmönnum og Samfylkingarfólki um allt land á öllum aldri. Saman og samstíga getum við allt.“

„Von og mikil vinna, bjartsýni og ákafi, samstaða, heiðarleiki og mannúð er það sem þarf til að auka fylgið við jafnaðarstefnuna. Og baráttugleðin mun fleyta okkur langt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert