„Ég vildi alveg verða dúx, ég neita því ekki.“

Í haust hyggst Skúli hefja nám í stærðfræði í Háskóla …
Í haust hyggst Skúli hefja nám í stærðfræði í Háskóla Íslands.

Hinn sautján ára gamli Skúli Guðmundsson er dúx Menntaskólans við Hamrahlíð, en hann lauk stúdentsprófi með 9,74 í vegna meðaleinkunn. Skúli lauk framhaldsskólanum á þremur árum, auk þess sem hann hoppaði yfir 9. bekk í grunnskóla.

Spurður hvort hann hafi ekkert þurft að læra námsefni 9. bekkjar, segir Skúli svo ekki vera. „Ekki beint. Ég veit það ekki, maður þurfti kannski aðeins eitthvað að læra þetta námsefni sem maður lærir í 9. bekk þegar maður var kominn í 10. bekk. En þetta er í rauninni allt endurtekið, það sem maður lærir í 9. bekk, í 10. bekk. Svo að í rauninni kom þetta allt af sjálfu sér. Þegar ég lærði fyrir próf í 10. bekk kom þar allt fram sem ég hefði átt að læra í 9. bekk.“

Stærðfræðin í uppáhaldi og íslenskan erfiðust

Skúli byrjaði að læra framhaldsskólastærðfræði í 10. bekk, en stærðfræði er uppáhaldsfag hans. „Já, stærðfræðin er í uppáhaldi hjá mér. Fyrir mér hefur hún alltaf verið tiltölulega auðveld, ég hef alltaf átt auðvelt með að læra stærðfræðireglur og þess háttar og að reikna. Að lokum fannst mér það bara gaman. Ég átti auðvelt með hana og áhuginn óx samhliða því,“ segir Skúli, en hann hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í stærðfræði við útskriftina, auk þýsku. Þá var stærðfræði fyrsta val hans, en Skúli útskrifaðist af opinni braut, sem þýðir að hann valdi sér sjálfur kjörgreinar.

Spurður hvort eitthvert fag hafi reynst honum erfitt nefnir Skúli íslenskuna, en móðir hans er bandarísk og því er bæði töluð enska og íslenska á heimilinu. „Það varð svolítil skörun þar á milli tungumála svo að ég féll örlítið aftur í íslenskunni og var örlítið seinni að koma íslenskunni upp á hærra plan, með öllu hinu, í framhaldsskólanum. Ef ég ætti erfitt með eitthvert fag þá væri það íslenskan.“

Skúli segist hafa stefnt að því að dúxa og er vitanlega ánægður að hafa náð þeim árangri. „Já, ef ég ætti að vera algjörlega hreinskilinn þá var þetta alveg markmið hjá mér. Ég vildi alveg verða dúx, ég neita því ekki. Ég held að eftir annað árið mitt hafi ég staðið mig nógu vel til að ég hugsaði með mér: Get ég ekki alveg prófað að kýla á þetta? Og það bara heppnaðist og ég er mjög ánægður með það.“

Nálgast lífið með opnum hug

Ein kjörgreina Skúla var hljóðfæraleikur, en hann nam á fiðlu í ellefu ár. Faðir hans er Guðmundur Hafsteinsson, tónskáld og kennari í Tónlistarskóla Reykjavíkur, en Skúli var m.a. nemandi hans. „Ég reyndar lærði hjá honum líka. Ég var líka í bóklegum greinum í tónlistarskólanum svo að ég var eiginlega í tveimur skólum þegar ég var í menntaskólanum.“ Þá kenndi móðir Skúla á klarínett til margra ára við Tónlistarskóla Seltjarnarness, svo að Skúli hefur ekki langt að sækja tónlistarhæfileikana. Skúli lagði fiðluna þó til hliðar fyrir síðasta skólaárið en segist vel getað hugsað sér að taka hana upp annað slagið í framtíðinni, sér til dundurs.

Í haust hyggst Skúli hefja nám í stærðfræði í Háskóla Íslands, sem kemur líklega ekki á óvart. Hvað hann tekur sér síðan fyrir hendur í framtíðinni er óráðið. „Það er enn opin spurning. Ég er ekki alveg ákveðinn í því hvað ég vil gera hvað atvinnu varðar en ég býst við að það muni tengjast raungreinum  á einhvern hátt. En annars ætti maður að nálgast lífið með opnum hug og vera opinn fyrir öllu. Ég get tekið hvaða leið sem er héðan.“

Val á milli góðra einkunna, svefns og félagslífs

Þegar blaðamaður spyr hvort það sé einhver tími fyrir félagslíf þegar námið er stundað af svo miklum krafti segir hann það varla vera. „Ekki neitt sérstaklega mikið. Það er einhver saga sem segir að maður geti valið á milli félagslífs, svefns og góðra einkunna. Ef þú leggur áherslu á eitt þá dregur það úr hinu. Ég lagði mesta áherslu á góðar einkunnir og afgangurinn fór eiginlega í svefn, svo að þá var lítið eftir fyrir félagslífið.“

Þar til Skúli hefur nám á ný mun hann starfa við garðslátt hjá Seltjarnarnesbæ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert