Enginn jafnaðarmaður í Viðreisn

Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, fagnar áherslu Viðreisnar á aðild að Evrópusambandinu og stefnu í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum. Hún segir hins vegar engan jafnaðarmann fara í Viðreisn, sem henni sýnist ekki vera velferðarflokkur.

Páll Magnússon, stjórnandi útvarpsþáttarins Sprengisands á Bylgjunni, spurði Oddnýju í morgun út í nýstofnaða flokkinn Viðreisn, sem mælist þegar stærri en Samfylkingin í skoðanakönnunum. Spurði hann hvort svonefndir hægrikratar væru búnir að finna sér nýjan vettvang og þeir þyrftu ekki lengur að vera í Samfylkingunni.

„Það fer enginn jafnaðarmaður í Viðreisn. Það get ég sagt þér,“ svaraði Oddný.

Fyrir utan Evrópusambandsaðildina sagðist hún fagna þeim markaðslausnum sem Viðreisn boðaði í úthlutun á veiðiheimildum og áherslun flokksins í landbúnaðarmálum. Áður hafði Oddný sagt að hún styddi enn að Ísland gengi í Evrópusambandið, aðallega til þess að geta tekið upp evru.

„En við erum velferðarafl í Samfylkingunni. Ég get ekki séð að það eigi við um Viðreisn,“ sagði Oddný.

Frétt mbl.is: Stefnir enn á ESB

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert