Drukku kaffi með veiðiþjófum

Veiðiþjófarnir veiddu allt sem hreyfðist að sögn Rúnars.
Veiðiþjófarnir veiddu allt sem hreyfðist að sögn Rúnars. Ljósmynd/Rúnar Karlsson

Veiðiþjófar sem höfðu komið sér fyrir í neyðarskýli í Hornvík og Hornströndum og meðal annars skotið sel og komið upp opnum eldi voru þar í leyfisleysi landeigenda. Mennirnir voru búnir að vera á svæðinu í um vikutíma en þeir höfðu siglt með ferðaþjónustufyrirtækinu Strandferðum sem siglir frá Norðurfirði.

Fyrirtækið sendi  frá sér tilkynningu í dag þar sem gjörðir mannanna voru harmaðar og að fyrirtækið hafi aðeins skutlað þeim fram og til baka af svæðinu.

Rúnar Óli Kárason, einn eigandi Borea Adventures sem einnig siglir á Hornstrandir, var einn þeirra sem kom að mönnunum á laugardaginn. Lét hann lögreglu vita af málinu sem er nú með það til skoðunar.

Í samtali við mbl.is segir Rúnar að skýringar Strandferða standist ekki skoðun. Þannig hafi skipstjórar á tveimur bátum fyrirtækinu komið á föstudaginn og verið í sólarhring hið minnsta með veiðimönnunum og meðal annars hafi einn þeirra verið að drekka kaffi með þeim þegar Rúnar og samferðamenn hans bar að garði á laugardaginn. Segir hann að mjög augljóst hafi verið að sjá hvað var á seiði og það hafi ekki getað farið fram hjá skipstjórunum tveimur.

Segir hann jafnframt að fyrirtækið hafi verið að flytja menn á friðlandið með skotvopn á tímabili sem veiði væri ekki leyfileg og þar að auki væri veiði bara heimil landeigendum sem þessir menn væru ekki og ólíklegt að hefðu leyfi til þess.

Segir hann að ef skipstjórar verði varir við að viðskiptavinir séu á veiðum ættu viðbrögðin auðvitað að vera að kalla til lögreglu og segja mönnum að hundskast strax í bátinn og sigla til baka.

Segir Rúnar að yfirlýsing Strandferða sé aumt yfirklór því það hafi verið alveg augljóst hvað var í gangi og skipstjórarnir sem hafi aðeins verið að flytja þá til Horn­vík­ur og sækja þá viku síðar líkt og um hafði verið samið, hafi vel getað gert sér grein fyrir brotunum í þann rúmlega sólarhring sem þeir voru á staðnum. 

Hornstrandir.
Hornstrandir. Kort

Ingvi Stígsson, einn eigenda að jörðinni Horni og stjórnarmaður í Landeigendafélagi Sléttu- og Grunnavíkurhrepps, var í Hornvík þessa helgi ásamt fleirum. Hann staðfestir að bátarnir hafi verið í Hornvík frá föstudegi fram á síðdegi laugardags þegar hann fór sjálfur.

Staðfestir hann að landeigendur að Horni hafi ekki veitt leyfi til veiða. Það gerir einnig Sævar Geirsson, einn eigandi jarðarinnar Rekavík bak Höfn í samtali við mbl.is. Ingvi segir að nokkrir sem hafi verið í Höfn hafi talið sig heyra skothvelli á föstudaginn, en hann hafi sjálfur ekki heyrt slíkt.

Allar ferðir á friðlandið á þessu tímabili, utan ferða landeigenda, eru tilkynningaskyldar til Umhverfisstofunar. Jón Smári Jónsson, umsjónarmaður friðlandsins, segir í samtali við mbl.is að engin tilkynning hafi borist vegna ferða mannanna.

Jón Smári segir að samkvæmt auglýsingu um friðlandið sé öll meðhöndlun skotvopna í friðlandinu bönnuð frá júní og fram í september. Utan þess tíma þurfi heimild landeigenda til hefðbundinna nytja.

Fréttir mbl.is um málið: 

Frétt mbl.is: Veiðiþjófar staðnir að verki

Frétt mbl.is: Ekki á vegum Strandferða

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert