Segja háskólastarfi stefnt í voða

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is/ Sigurður Bogi Sævarsson

Háskólaráð Háskóla Íslands lýsir yfir verulegum áhyggjum og vonbrigðum vegna fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2017 til 2021. Þetta kemur fram í ályktun ráðsins en þar segir einnig að í áætluninn sé gerð krafa um töluverða útgjaldaaukningu skólans sem fjárveitingar til háskóla- og rannsóknastarfs standi engan veginn undir.

Vísar háskólaráð til orða mennta- og menningarmálaráðherra um að háskólastigið á Íslandi sé verulega undirfjármagnað en það staðfesti einmitt samanburður við háskóla á hinum Norðurlöndunum og skýrslur OECD.

Samkvæmt aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs á framlag á hvern háskólanema að vera sambærilegt við það sem þekkist á Norðurlöndunum árið 2020 en í fjármálaáætlun næstu ára sé ekki gert ráð fyrir að þessu markmiði takist að ná „nema ætlunin sé að fækka nemendum sem eiga kost á háskólanámi hérlendis um mörg þúsund og halda fjárveitingum óbreyttum og/eða hefja almenna töku skólagjalda“ segir í ályktuninni.

Fjárhagsáætlun fyrir Háskóla Íslands gerir ráð fyrir 300 m.kr. rekstrarhalla á yfirstandandi ári og því ljóst að skólinn stendur höllum fæti fjárhagslega.

„Í ljósi þessa er fyrirliggjandi tillaga að fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar ekki einungis vonbrigði heldur mun hún, verði hún samþykkt óbreytt, hafa verulega neikvæð áhrif á tækifæri nemenda til háskólanáms, vísindastarf, framþróun í atvinnusköpun og samkeppnisstöðu Íslands til framtíðar“ segir enn fremur í ályktun háskólaráðs.

Í ljósi þess skorar háskólaráð á ríkisstjórnina og Alþingi að endurskoða fimm ára fjármálaáætlun sína fyrir árin 2017–2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert