Varað við mögulegri brunahættu

Í einangruðum tilvikum gæti ryk eða kusk komist í snertingu …
Í einangruðum tilvikum gæti ryk eða kusk komist í snertingu við hitaelement í þurrkaranum og valdið brunahættu, að því er fram kemur í tilkynningu ELKO.

ELKO segir að þeir sem hafa keypt þéttiþurrkara af gerðinni Hotpoint, Indesit eða Creda, sem voru framleiddir frá apríl 2004 til september 2015, muni brátt fá senda sérstaka tilkynningu vegna mögulegrar brunahættu. Tilkynningin nær til stórs hóps en ELKO segir að gert verði við tækin viðskiptavinum að kostnaðarlausu.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem ELKO hefur sent til fjölmiðla. 

Þar kemur fram að Whirlpool Company hafi nýlega tekið yfir Hotpoint/Indesit og Creda vörumerkin. Í framhaldinu hafi Whirlpool unnið að því að skoða vandlega gæðin á nýja eignasafni sínu.

„Í kjölfarið hefur Whilpool tekið eftir því að mögulega er tilefni til að hafa áhyggjur af tveimur tegundum af þurrkurum sem framleiddir voru frá apríl 2004 til september 2015. Í einangruðum tilvikum gæti ryk eða kusk komist í snertingu við hitaelement í þurrkaranum og valdið brunahættu,“ segir í tilkynningunni.

„Samkvæmt gögnum ELKO ehf er talsvert magn af Hotpoint-þurrkurum sem þessi öryggistilkynning gæti náð yfir á Íslandi. Öllum eigendum sem ELKO ehf hefur skrá yfir munu verða send sérstök tilkynning.

Whirlpool company hefur samið við þjónustuaðila á Íslandi (Rafbraut ehf., Dalvegi 16B) um að sinna því viðhaldi sem talið er að sé nauðsynlegt að framkvæma – og er það eiganda að sjálfsögðu að kostnaðarlausu. Hafa skal í huga að sú aðgerð sem þarf að framkvæma á tækinu á einungis við um þau tæki sem en eru í notkun og í lagi,“ segir enn fremur.

ELKO bendir á að viðskiptavinir sem eigi slík tæki þurfi að gera eftirfarandi:

  • Fara inn á https://safety.hotpoint.eu
  • Hafa vörunúmer og serialnúmer vörunnar við hendina (er yfirleitt staðsett aftan á tækinu eða við hurð)
  • Velja íslensku sem tungumál (Icelandic)
  • Fylgja þeim leiðbeiningum sem koma í kjölfarið


„Þjónustuaðili fær tilkynningu þegar beiðnin hefur verið skráð og mun hafa samband við hlutaðeigandi í kjölfarið. Hafa þarf í huga að þessi aðgerð nær yfir talsvert stóran hóp og biðjum við hlutaðeigandi því að sýna þessu verkefni þolinmæði.

Það er mikilvægt að minnast á það að vörurnar hafa staðist kröfur Evrópusambandsins um gæði og öryggi. Jafnvel þótt vörurnar standist reglur, viljum við setja í gang aðgerðir til úrbóta til þess að viðskiptavinir okkar geti verið vissir um að hafa með höndum vörur sem standast þau gæði og öryggi sem Whirlpool hefur sett sér.

Í millitíðinni mega viðskiptavinir alveg nota vörurnar sínar, en við mælum með því að tækin séu ekki höfð í gangi eftirlitslaus. Við minnum viðskiptavini líka á mikilvægi þess að þrífa tækin vel og sinna almennu viðhaldi eins og útlistað er í notendahandbókinni. Virðingarfyllst Starfsfólk ELKO ehf.,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert