Eskfirðingurinn fljúgandi dúxaði

Bjarki Jóhannsson, dúx Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
Bjarki Jóhannsson, dúx Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Ljósmynd/Óli Magg

Bjarki Jóhannsson lauk ekki einungis stúdentsprófi á nýliðnu skólaári, heldur einnig einkaflugmannsnámi. Bjarki er dúx Fjölbrautaskóla Suðurnesja en hann útskrifaðist með meðaleinkunnina 9,18.

„Það var annar nemandi sem ég hélt að myndi taka þetta svo þetta var pínu óvænt. Ég reyndi náttúrulega að ná þessu og þegar þessi önn byrjaði sá ég að ég gæti kannski náð þessu svo ég reyndi og það tókst“, segir dúxinn, en hann hlaut viðurkenningar fyrir góðan námsárangur í stærðfræði, raungreinum, eðlis- og efnafræði og spænsku. Segir hann stærðfræði og raungreinar vera sínar uppáhaldsgreinar, en íslenskan hafi reynst honum erfiðust, enda hafi hann fengið lægst í henni.

Bjarki vill þakka fjölskyldu sinni fyrir stuðninginn og þá sér í lagi afa sínum og ömmu, sem hvöttu hann áfram í náminu og gáfu honum veglega gjöf við útskriftina, sem hann segir að muni nýtast sér í framtíðinni.

Stefnir á áframhaldandi flugnám

Bjarki lauk námi á þremur árum, en hann innritaðist í gamla framhaldsskólakerfið, þar sem gert er ráð fyrir fjögurra ára námi. Blaðamaður spyr hvort hann hafi þá þurft að taka hluta námsins í sumarskóla og neitar Bjarki því. „Nei, ég tók ekki neitt í sumarskóla. Ég er einkaflugmaður líka, ég fékk það metið svo ég var í 42 einingum á einni önn. Ég tók það í Keili. Bóklega er ein önn og verklega fer bara eftir því hvað þú nærð að fljúga. Ég tók bóklega haustið 2014 og kláraði svo verklega núna haustið 2015.“

Í haust stefnir Bjarki á áframhaldandi flugnám í Keili, þar sem hann ætlar sér að verða atvinnuflugmaður. „Ég veit það ekki sko. Ég bjó á Eskifirði þegar ég var yngri og bjó alla grunnskólagönguna þar. Svo þegar ég flutti hingað í Reykjanesbæ var ég miklu nær flugvélunum og sá þær á hverjum degi og bara einhvern veginn heillaðist. Ég prófaði bara og það gekk vel.“ segir dúxinn, aðspurður um það hvernig áhuginn á flugnámi hafi kviknað.

Snjóbrettaslys endaði íþróttaferilinn

Á yngri árum lék Bjarki fótbolta en áhugi á snjóbrettum endaði knattspyrnuferilinn. „Ég byrjaði að æfa fótbolta þegar ég var yngri og hafði alltaf verið í fótbolta. Svo byrjaði ég á snjóbretti og lenti í því að detta á snjóbretti og slíta krossbrand. Svo ég sagði skilið við fótboltann. Ég fer líka lítið á snjóbretti svo það er búið.“ Auk íþróttanna hefur Bjarki lagt stund á hljóðfæraleik, en hann lauk miðprófi á píanó og æfði á gítar. Hann hefur nú lagt hljóðfærin til hliðar, en segist grípa annað slagið í gítarinn og glamra.

Í sumar, líkt og síðustu sumur, mun Bjarki starfa á hugsanlegum framtíðarvinnustað sínum, Keflavíkurflugvelli. Síðustu sumur hefur Bjarki starfað í töskusalnum en hefur nú fært sig lítilla, nefnilega á bílaleigu á flugvellinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert