Herða beri reglur um kynjakvóta

Vinnuhópur á vegum nokkurra ráðuneyta stóð í dag fyrir opnum fundi í Iðnó um stöðu mannréttinda á Íslandi. Um er að ræða þátt í verkefninu Universal Periodic Review (UPR) sem reglubundin athugun á stöðu mannréttinda í fjölmörgum löndum.

Er þetta í annað skiptið sem fjallað er um Ísland en fyrstu skýrslunni var skilað til mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna árið 2011. Vinnan í þetta skiptið byggir að miklu leyti á athugun á þeim athugasemdum sem Ísland fékk í síðustu úttekt.

Ragna Bjarnadóttir, verkefnastjóri verkefnisins, fjallaði á fundinum um verkefnið sjálft. Greindi hún frá því að í síðustu skýrslu hafi Ísland fengið hrós fyrir nokkra þætti, en aðra þætti þyrfti að bæta úr.

Sjá frétt mbl.is: „68 kynslóðin með snjallsíma“

Á meðal þess sem var jákvætt var starfsemi Barnahúss, jafnréttismál, málefni hælisleitenda og málaflokkurinn mansal og vændi. Þeir flokkar sem gerðir voru athugasemdir við voru staða útlendinga, kynbundið ofbeldi, kynferðisofbeldi gegn börnum, jafnréttismál, fangelsismál. Þá var Ísland hvatt til þess að setja á fót mannréttindastofnun sem starfar samkvæmt svonefndum Parísarviðmiðum. 

Fundurinn í dag var til þess að fá innspil frá almenningi og félagasamtökum en á fundinum voru fulltrúar nokkurra félagasamtaka, meðal annars Samtakanna 78 og Öryrkjabandalagsins. Drög að skýrslunni verða svo birt á heimasíðu innanríkisráðuneytisins um miðjan júní og mun þá almenningi gefast tækifæri til að skila inn athugasemdum sem unnið verður úr.

Aðgerðaráætlanir útrunnar eða að renna út

Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands kynnti á fundinum skýrslu sem skrifstofan hefur unnið um stöðu mannréttindamála á Íslandi. 

Hún segir skýrsluna fyrst og fremst taka til þess hvernig íslenskum stjórnvöldum hafi tekist til að uppfylla skuldbindingar sínar á grundvelli afstöðu sinnar til tilmæla og athugasemda sem fram komu í síðustu skýrslu. 

Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands.
Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands.

„Við bendum til dæmis á að á Íslandi er engin innlend mannréttindastofnun sem starfar samkvæmt Parísartilmælunum. Auk þess að hvetja stjórnvöld til þess að koma slíkri stofnun á fót hvetjum við þau til að nota reynslu og þekkingu mannréttindaskrifstofu Íslands í þessi sambandi. Stofnunin hefur frá upphafi leitast við að starfa eftir Parísarviðmiðunum,“ sagði Margrét og fjallað svo um þá málaflokka sem nefndir eru í skýrslunni.

„Síðasta aðgerðaráætlun stjórnvalda um kynjajafnrétti gilti til ársloka 2014 og ný áætlun hefur ekki verið innleidd. Margir myndu eflaust segja að sú gamla gildi þá bara áfram, en það væri betra að ný áætlun tæki gildi því það eru ýmsar aðgerðir sem þarf að grípa til.“

„Aðgerðaráætlunin gegn kynbundnu ofbeldi rann út árið 2011 og ný hefur ekki verið innleidd. Við bendum á að slík áætlun þyrfti að innihalda ákvæði um lögreglu, saksóknara og dómara og fela í sér vitundarvakningu og viðhorfsbreytingu,“ sagði Margrét og útskýrði í hverju slík úrræði gætu falist.

Staða kvenna innan lögreglunnar verði skoðuð

„Við höfum bent á stöðu kvenna innan lögreglunnar. Stór hluti kvenna hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni, bæði af samstarfsmönnum og utanaðkomandi. Við þurfum að fjölga konum í ábyrgðastöðum þar. Þrátt fyrir að lögreglukonum hafi fjölgað og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu er kona þá eru mjög fáar konur í yfirmannsstöðum,“ segir Margrét og nefnir einnig dómskerfið sem dæmi.

„Aðeins einn af níu hæstaréttardómurum er kona og eru stjórnvöld hvött til að stuðla að fjölgun kvenkyns hæstaréttardómara. Mögulega þarf að breyta lögum því að jafnréttislögin taka greinilega ekki til vals á hæstaréttardómurum.“

Þá segir í skýrslunni að fjölga þurfi konum í utanríkisþjónustunni þótt vissulega hafi átt sér stað jákvæð þróun þar að undanförnu. 

Aðgerðaráætlun gegn mansali er í gildi nú en sú áætlun var gerð fyrir árin 2014–2016. „Ýmislegt hefur verið gert í mansalsmálum undanfarið, meðal annars hefur verið farið í fræðsluátak sem þegar hefur skilað miklum árangri,“ segir Margrét.

Herða beri reglur um kynjakvóta

Hvað varðar löggjöfina, þá segir Margét að ákvæði skorti í íslensk lög sem banna mismunun. 

„Fyrir utan 65. gr. stjórnarskrárinnar og lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, og einstök ákvæði í ýmsum lögum er engin löggjöf sem bannar mismunun. Við hvetjum til þess að slík löggjöf verði innleidd í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins,“ segir Margrét.

Þá vill hún endurskoða lögin um kynjakvóta. „Við lögðum til að lögin um kynjakvóta taki til fyrirtækja með 25 starfsmenn og fleiri. Núverandi lög taka til fyrirtækja með yfir 50 starfsmenn en það endurspeglar ekki íslenskan veruleika nógu vel. Hér eru mörg smærri fyrirtæki. Við myndum telja það raunhæft að þessu yrði breytt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert