„Eins og að krota í sand á strönd“

Mikla athygli vakti hér á landi þegar Marco sett lit …
Mikla athygli vakti hér á landi þegar Marco sett lit í Strokk. Ljósmynd/Marco Evaristti

Fram kom í málflutningi saksóknara, í máli ákæruvaldsins gegn Marco Antonio Evaristti, að ljóst væri að talsverð spjöll hefðu orðið á hvernum Strokki þegar Marco hellti litnum í hverinn. Liturinn hefði varað í nær viku og þannig haft slæm áhrif á upplifun þeirra sem svæðið heimsóttu á þeim tíma.

Saksóknari sagði fjölda íslenskra sem erlendra ferðamanna leggja ferð sína um svæðið á hverjum degi. Afleiðingar af háttsemi Marco hefðu verið umtalsverðar enda hafi hann í tæpa viku raskað svæðinu í formi sjónrænni mengunar.

Þá yrði líka að hafa í huga, að gættum vitnisburði Lindu Guðmundsdóttur landvarðar, að yfirvöld á svæðinu hefðu ekki hugmynd um af hverju liturinn stafaði. Mótmælti hann því enn fremur sem fram kæmi í greinargerð ákærða, að hverinn hafi aldrei raskast og aldrei orðin nein spjöll.

Við upphaf aðalmeðferðar í máli gegn listasmanninum Marco Ant­onio Evarist­ti …
Við upphaf aðalmeðferðar í máli gegn listasmanninum Marco Ant­onio Evarist­ti í héraðsdómi Suðurlands í morgun. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Til vara sé litunin „áletrun“

Ákæruvaldið gefur ákærða að sök að hafa brotið gegn ákvæði d-liðar 37. greinar þágildandi náttúruverndarlaga. Sagt er þar að forðast skuli röskun ýmissa svæða, en d-liður lýtur að  fossum, hverum og öðrum heitum uppsprettum, svo og hrúðrum og hrúðurbreiðum.

Til vara er hann ákærður fyrir að hafa brotið gegn 42. gr. sömu laga. Sagði saksóknari að líta yrði á litun hversins og svæðisins þar í kring sem nokkurs konar áletrun, líkt og bann sé lagt við í viðkomandi ákvæði.

Þá sagði saksóknari að lokum að ákæruvaldið teldi hæfilega refsingu vera 200 þúsund króna sekt.

Ekki ágreiningur um málavöxtu

Verjandi Marco sagði engan ágreining vera um málavxtu, heldur aðeins hvort verknaðurinn væri refsinæmur. Af hálfu ákærða væri ekki fallist á að afleiðingar hefðu orðið af verknaðinum í skilningi laga.

Verjandi sagðist í fyrsta lagi telja að 37. grein náttúruverndarlaga fæli ekki í sér nægilega skýra refsiheimild.

Hann sagði gjörning Marco vera „eins og að krota í sand á strönd“, þar sem krotið myndi mást skömmu síðar. Lögregla hefði þannig ekki náð tali af neinum manni sem hefði séð hverinn gjósa rauðu. Þá hefðu engin sýni verið tekin af vatni hversins né umhverfi hans dagana eftir gjörninginn, heldur aðeins samdægurs.

Listamaðurinn Marco Ant­onio Evarist­ti fyrir utan héraðsdóm Suðurlands í dag.
Listamaðurinn Marco Ant­onio Evarist­ti fyrir utan héraðsdóm Suðurlands í dag. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Geti ekki talist röskun

Fram komi í rannsóknargögnum Háskóla Íslands að efnið hafi fundist í vatninu, en undir greiningarmörkum. Þá hefði það ekki fundist í steinsýninu.

„Það getur ekki talist röskun að setja efni út í náttúruna sem eyðist svo á skömmum tíma. Þá verður að líta til þess að gjörningurinn átti sér stað að nóttu til. [...] Verður að líta svo á að gjörningurinn fól ekki í sér röskun, ef litið er til hugtaksins í skilningi laganna.“

Krafðist verjandinn að lokum sýknu fyrir hönd ákærða af bæði aðal- og varakröfu ákæruvaldsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert