Marco segir litinn skaðlausan

Listamaðurinn Marco Ant­onio Evarist­ti fyrir utan Héraðsdóm Suðurlands í dag.
Listamaðurinn Marco Ant­onio Evarist­ti fyrir utan Héraðsdóm Suðurlands í dag. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Marco Ant­onio Evarist­ti, sem hefur verið kærður af landeiganda að Geysissvæðinu fyrir að hafa sett rauðan lit í hver­inn Strokk, heldur því fram að liturinn hafi verið skaðlaus. Þá hafi hann rannsakað mögulega skaðsemi hans áður en hann framdi gjörninginn. Þetta er meðal þess sem fram hefur komið við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Suðurlands, sem nú fer fram.

Spurður af saksóknara hvernig hann gæti útskýrt þann verknað sem hann er ákærður fyrir, sagðist Marco, en það er listamannsnafn Evaristti, hafa framkvæmt listaverk í ýmsum löndum.

„Ég geri það vegna þess að ég tel það nauðsynlegan þátt í umleitan minni við að annast náttúruna,“ sagði Marco.

„Þetta lítur fallega út og ég notaðist við skaðlausa ávaxtaliti. Ég gerði þetta á grundvelli skýrslu rannsóknarstofnunar í Danmörku, þar sem fram kemur að þetta efni sé skaðlaust og eyðist innan nokkurra klukkutíma.

Ég vil einnig taka fram að þá hefur þessi aðferð við listsköpun verið við lýði frá 7. áratugnum. Þú notar landslagið sem nokkurs konar málarastriga, til að framkvæma listaverkið.“

Einn á ferð árla morguns

Hvernig gerðirðu þetta?

„Ég nálgaðist viðkomandi stað og setti fimm lítra af þessum lit í hverinn.“

Hvernig komstu þessu í hverinn?

„Ég fór mjög nálægt Strokki og hellti niður fimm lítrum ofan í hverinn.“

Spurður sagðist hann hafa verið einn á ferð. Hann hafi gert þetta árla morguns og vildi ekki að neinn annar myndi raska listaverkinu.

Telur sig ekki hafa raskað hvernum

Saksóknari spurði þá hvort myndir af heimasíðu Marcos væru af listaverkinu fullgerðu. Sýndi hann honum útprentaðar myndir af síðu hans og sagðist Marco trúa því að það væri rétt, nokkrar þeirra væru af síðu hans. Aðrar myndir, sem saksóknari sýndi Marco, sagðist hann ekki kannast við.

Verjandi Marco spurði hann hvort hann teldi sig hafa raskað umhverfi hversins og honum sjálfum með einhverjum hætti. Marco neitaði því og sömuleiðis sagðist hann aðspurður vita að efnið myndi hverfa á stuttum tíma. Enn fremur sagðist hann aðspurður vita vel hvaða afleiðingar efnið hefur í för með sér.

Að lokum sagðist Marco engu vilja við þetta bæta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert