Marco segist ekki hafa gert neitt rangt

Mikla athygli vakti hér á landi þegar Marco sett lit …
Mikla athygli vakti hér á landi þegar Marco sett lit í Strokk. Ljósmynd/Marco Evaristti

Í dag verður mál lögreglustjórans á Suðurlandi gegn listamanninum Marco Antonio Evaristti tekið til aðalmeðferðar. Evaristti ber listamannanafnið Marco, en hann komst í fréttirnar fyrir ári þegar hann setti bleikan lit í hverinn Strokk. Landeigandi að Geysissvæði kærði Marco til lögreglu. Hann segir að í fyrstu hafi honum verið gert að sök að hafa valdið náttúruspjöllum en eftir að í ljós kom að hann notaði matarlit við að lita hverinn hafi sakargiftum verið breytt og honum gert það að sök að raska jarðmyndunum eða vistkerfum. Var honum að eigin sögn gert að greiða sekt upp á 150 evrur, eða um 22 þúsund krónur. Hann neitar hins vegar að greiða sektina og telur sig ekki hafa gert neitt rangt. „Ég veit ekki hvað mun gerast ef ég tapa málinu,“ segir Marco. Hann segir að hann sé kominn til landsins til þess að gefa skýrslu fyrir héraðsdómi en vill ekki gefa það upp hvort hann hyggi á frekari gjörninga af því tagi sem hann framkvæmdi í fyrra. „Í mínum huga gerði ég ekkert rangt.“

Ekkert sagt við verki Ólafs

„Þeir ásaka mig um að raska ásýnd náttúrunnar en það er tvískinnungur því að fólk sem býr í landinu gerir nákvæmlega það sama á hverjum degi, t.d. því að hleypa koltvísýringi í loftið með því að nota hinar ýmsu vélar,“ segir Marco og nefnir m.a. bíla í þessu samhengi. „Ég er bara á landinu til þess að mæta fyrir dómstóla. Tilgangurinn er að berjast fyrir málfrelsi mínu sem listamanns. Í þessu samhengi má nefna það að þetta hefur þegar verið gert á Íslandi án þess að neinn hafi sagt neitt því um innlendan listamann er að ræða,“ segir Marco og bendir á að Ólafur Elíasson hafi framkvæmt sambærilegan gjörning þegar hann litaði árkvísl á hálendinu með deyfðum lífrænum litefnum. Hann bendir á að þegar hafi verið sýnt fram á að engin eiturefni séu í litnum sem hann notaði. „Allur liturinn hvarf án þess að hafa neikvæð áhrif á umhverfið,“ segir Marco, sem segist fara af landi brott fljótlega eftir skýrslutökuna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert