Nálægt því að fara sömu leið

Hrefna Hrund (t.h.) ásamt þjálfaranum sínum, Patriciu Garcez.
Hrefna Hrund (t.h.) ásamt þjálfaranum sínum, Patriciu Garcez.

„Það í rauninni snertir mig að því leytinu til að frændi minn tók sitt eigið líf í fyrrasumar,“ segir Hrefna Hrund Erlingsdóttir sem ætlar sér að hlaupa 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar og leyfa verkefninu Útmeð‘a njóta góðs af. 

Geðhjálp og Hjálparsími Rauða krossins standa sameiginlega að forvarnarátakinu Útmeð‘a. Markmið átaksins er að bæta líðan, fækka sjálfsskaða og sjálfsvígum í íslensku samfélagi.

Með slagorðinu Útmeð‘a er fólk hvatt til að deila áhyggjum sínum með öðrum. Framlög til Útmeð‘a verða nýtt til framleiða gagnvirkt forvarnarmyndband um sjálfsskaða, setja upp heimasíðu og vinna með öðrum hætti að markmiði Útmeð‘a

Heldur sér á góðu róli

Margir þekkja Hrefnu úr Biggest Loser-þáttunum en hún tók þátt í þriðju þáttaröðinni hér á landi. Alls missti hún 43,3 kíló í þáttunum og segir baráttu sína ganga vel.

„Það gengur rosalega vel fyrir mig að hreyfa mig. Þegar maður er matarfíkill getur þetta verið erfitt, þá er matarræðið svona upp og niður en ég er í samstarfi við rosalega góðan þjálfara sem heldur mér á strikinu svo ég segi að ég sé að halda mér á góðu róli. Af því að pressan úr keppninni er farin þá er þetta bara að gerast á eðlilegum hraða. Ég hef ekki enn dottið í neitt rugl. Ég er bara að halda áfram þessum lífstíl sem ég var komin í og það gengur bara vel.“

Í þáttunum bar Hrefna bókstafinn S á hendinni til minningar um frænda sinn sem hún hleypur nú fyrir.

„Það var í rauninni vegna þess hvernig hann brást við þegar hann frétti að ég væri að fara í þetta. Hann sýndi svo mikinn stuðning. Hann hét Snorri svo þetta var upphafsstafurinn hans. Þetta var í rauninni bara áminning fyrir mig um að halda áfram og í rauninni fannst mér ég vera að gera þetta til að fá mína hamingju og hans til baka og sem áminning fyrir mig til að vinna bug á mínum vanda sem er núna þessi líkamlegi þáttur,“ útskýrir Hrefna Hrund. 

Hrefna Hrund ætlar að hlaupa 10 km. í Reykjavíkurmaraþoninu. Hér …
Hrefna Hrund ætlar að hlaupa 10 km. í Reykjavíkurmaraþoninu. Hér er Hrefna á Trölladyngju. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Fólki finnst þetta viðkvæmt“

Hún segir málefnið mikilvægt og að þörf sé á vitundarvakningu um þunglyndi og sjálfsvíg, þar sem alltof margir sjá enga aðra leið út úr veikindum sínum en að taka eigið líf.

„Fólki finnst þetta viðkvæmt. Eins og það sé einhver skömm að því að annað hvort díla við þunglyndi eða þekkja einhvern sem fer svona eða eins og þetta sé eitthvað sem má ekki tala um,“ segir hún. 

Sjálf þekkir Hrefna Hrund vandann vel og segir mikið þunglyndi liggja í fjölskyldu sinni. „Ég hef sjálf glímt við þunglyndi og verið nálægt því að fara sömu leið. Svo mér finnst rosalega mikilvægt að gera allt sem er hægt til að reyna að sporna við þessu. Reyna að hafa svona forvarnarverkefni og vekja fólk til umhugsunar um umfang vandans.“

Stefnir á að hlaupa á undir 90 mínútum

Verkefnið leggst vel í Hrefnu, sem segist hafa sett sér það markmið að ljúka hlaupinu á innan við einni og hálfri klukkustund. Undirbúningurinn fer hægt af stað en hún segist vinna eftir markvissu plani og að þetta ætti allt saman að takast. „Ég skráði mig nú í einhverju bjartsýniskasti en þetta hlýtur að takast. Ég kem vonandi í mark áður en þeir taka þetta niður.“

Hrefna stundar líkamsrækt hjá þjálfara en hefur undirbúið sig sjálf fyrir Reykjavíkurmaraþonið. Stefnan er þó sett á að sameina þjálfunina og undirbúninginn fyrir hlaupið og segir Hrefna að sjái hún fram á að eiga í erfiðleikum með hlaupið, ætli hún sér að ráða þjálfarann sinn í tvo tíma til að hlaupa með sér.

„Ef að hún er hliðina á mér þá stoppa ég pottþétt ekki. Hún sagðist reyndar ekki þola að hlaupa en að hún myndi gera þetta fyrir mig“ segir Hrefna og hlær.

Áheitasöfnun Hrefnu fyrir hlaupið er komin af stað og hægt að leggja henni lið og fylgjast með söfnuninni hér. „Markmiðið er að komast í 50 þúsund, það gengur hægt. Ég er líka ekkert búin að minna á þetta því það er langt í þetta enn þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert