Tíminn af skornum skammti

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Ljósmynd/Víkurfréttir

„Ég mun senda erindi til innanríkisráðuneytisins í dag og greina frá niðurstöðu bæjarstjórnarfundar í gær,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, en erindið varðar lengri frest sem sveitarfélagið óskar eftir til að ná samningum við kröfuhafa.Málið fer til eftirlitsnefndar um málefni sveitarfélaga en ljóst er að tíminn er af skornum skammti.

Greint var frá því á mbl.is í gærkvöldi, að stjórn Reykja­nes­hafn­ar hafi óskað eft­ir greiðslufresti og kyrr­stöðutíma­bili við kröfu­hafa Reykja­nes­hafn­ar meðan á viðræðum Reykjanes­bæj­ar við aðila standi yfir. Fram kemur, að enn væri von að samn­ing­ar næðust milli bæj­ar­ins og kröfu­hafa og slík­ir samn­ing­ar myndu létta á greiðslu­byrði sveit­ar­fé­lags­ins og gera því kleift að leggja fram raun­hæfa aðlög­un­ar­áætl­un. 

Á fundi bæjarstjórnar í gær voru lagðar fram bókanir, þ.e. bókun meiri- og minnihluta.

„Þessar bókanir eiga það sameiginlegt að báðir aðilar vilja óska eftir fresti. En mismunurinn á þessum bókunum er að menn vilja nota frestinn með misjöfnum hætti. Það er að segja, meirihlutinn vill nota frestinn til þess að klára viðræður við kröfuhafa en minnihlutinn telur að það eigi að nota frestinn, náttúrulega til að halda áfram að ræða við kröfuhafa, en líka til að gera nýja aðlögunaráætlun, sem meirihlutinn telur að sé ekki hægt að gera nema að loknum viðræðum við kröfuhafa,“ segir Kjartan.

Hann tekur fram að hann viti ekki hvenær eftirlitsnefndin muni taka málið fyrir. 

„Við höfum alla tíð borið þá von í brjósti að við gætum klárað þetta mál sjálf,“ segir Kjartan aðspurður. 

Tíminn er hins vegar af skornum skammti og aðspurður segir Kjartan að öllum sé orðið ljóst að tíminn sé orðinn mjög knappur. Hann vonast til að línur muni skýrast fram að næsta fundi bæjarstjórnar sem verður haldinn eftir hálfan mánuð. „Þó að við klárum þau [málin] ekki, að við verðum komin á einhverja braut sem okkur þykir líklegt að muni leiða okkur að niðurstöðu.“

Reykjanesbær: Enn von um samninga

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert