Tryggja farsæla aðlögun innflytjenda

mbl.is/Hjörtur

Ólöf Nordal innanríkisráðherra og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, lögðu fram tillögu í ríkisstjórn Íslands og óskuðu eftir fjárveitingu að upphæð tíu milljóna króna til að vinna heildstæða greiningu og mat á gæðum aðlögunar innflytjenda og flóttamanna að íslensku samfélagi. Tillagan var lögð fram 19. febrúar síðastliðinn en samþykkt í gær. Þær telja mikilvægt að fá heildstæða greiningu á því hvernig flóttafólki og innflytjendum vegni í íslensku samfélagi til þess að stefnumörkun í málaflokknum verði sem skilvirkust. 

Innanríkisráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra hafa haft til skoðunar ábendingar Ríkisendurskoðunar frá mars 2015 um málefni útlendinga og innflytjenda. Með vísan til hennar er það mat ráðherra að ráðast þurfi í sameiginlegt verkefni á vettvangi stjórnarráðsins sem lúti að því að skoða margvíslega þætti er verða stjórnsýslu og þjónustu á þessu sviði og greina umbótatækifæri í því sambandi. 

Í skýrslu sinni bendir Ríkisendurskoðun á fjölmörg atriði sem þyrfti að skoða til að bæta lagaumhverfi, stjórnsýslu og skipulag þegar kemur að málefnum innflytjenda og flóttafólks hér á landi, til dæmis varðandi móttöku flóttafólks og hælisleitenda, málsmeðferð og málshraða, réttindamál, stuðning og fleira. Einnig bendir Ríkisendurskoðun á að skjóta þurfi styrkari stoðum undir þá þætti sem eiga að tryggja farsæla þátttöku innflytjenda í íslensku samfélagi, meðal annars íslenskukennslu, túlkaþjónustu og tækifærum til atvinnuþátttöku.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.

Þörf á heildstæðri greiningu og mati á gæðum 

Því hefur verið lagt til að innanríkisráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra verði falið að leita eftir samstarfi við sérfræðinga á þessu sviði  og er hlutverk þeirra í raun þríþætt.

Í fyrsta lagi að fylgja eftir ábendingum Ríkisendurskoðunar og meta eftir atvikum þörf fyrir frekari umbætur svo tryggja megi farsæla aðlögun innflytjenda hér á landi svo og stjórnsýslunnar og auðvelda möguleika innflytjenda til að nýta réttindi sín og vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Í því sambandi verði kannað hvort leggja þurfi til breytingar á verkefnaskiptingu ráðuneyta og stofnana til að tryggja samþættari og skilvirkari stjórnsýslu sem og betri þjónustu.

Í öðru lagi að vinna greiningu á verkefnum er ýmsar stofnanir og þjónustukerfi standa frammi fyrir vegna aukins fjölda innflytjenda á Íslandi. Fjölmargir þættir kæmu í því sambandi til skoðunar sem varða m.a. velferðarþjónustu, heilbrigðisþjónustu, húsnæðiskerfið, menntakerfið, réttarvörslukerfið og atvinnumarkaðinn. Í þessu sambandi væri rétt að horfa einnig á fjárlaga- og kostnaðartengda þætti.

Í þriðja lagi að kanna hvernig staðið er að rannsóknum og öflun upplýsinga um hvernig innflytjendum, ekki síst flóttafólki, hafi vegnað í íslensku samfélagi með tilliti til menntunar, atvinnumöguleika, félagslegrar þátttöku og heilbrigðisþátta.

Þá er jafnframt lagt til að komið verði á fót teymi skipuðu fulltrúum ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem vinni að verkefninu með þeim sérfræðingum sem til verksins veljast.

Afurð verkefnisins yrði síðan greinargerð með tillögu að aðgerðum til ríkisstjórnar sem jafnfram myndi nýtast með beinum hætti varðandi framkvæmd og eftirfylgni framkvæmdaráætlunar um málefni innflytjenda.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Pólverjar 37,5% allra innflytjenda á Íslandi 

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að 1. janúar 2015 hafi fyrstu kynslóðar innflytjendur á Íslandi verið 29.192 eða 8,9% mannfjöldans. Þá hefur annarrar kynslóðar innflytjendum einnig fjölgað úr 3.540 árið 2014 en eru um 3.850 nú.

Samkvæmt Hagstofunni er innflytjandi einstaklingur sem fæddur er erlendis og á foreldra sem fæddir eru erlendis. Til annarrar kynslóðar innflytjenda teljast þeir einstaklingar sem fæddir eru á Íslandi en eiga foreldra sem eru innflytjendur.

Hvað EES-borgara varðar þá eru Pólverjar langfjölmennasti hópur innflytjenda hér á landi en þann 1. janúar síðastliðinn voru þeir 37,5% allra innflytjenda á Íslandi. Spár gera ekki ráð fyrir því að það dragi úr fólksflutningum á komandi árum, þvert á móti að þeir muni færast í aukana.

Fjölgun hælisumsókna leiðir af sér að fleiri útlendingar fá heimild til dvalar hér á landi en áður. Á fyrsta ársfjórðungi árið 2016 höfðu 25 einstaklingar fengið alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi af mannúðaraðstæðum. Þá vinnur ríkisstjórn að móttöku kvótaflóttamanna og má áætla að um hundrað manns komi í ár sem kvótaflóttafólk frá Sýrlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert