Flygildi spara tíma við leit

Flygildin hafa meðal annars verið notuð í útkalli í Esjunni, …
Flygildin hafa meðal annars verið notuð í útkalli í Esjunni, til að kanna hentugar leiðir líkt og gert var í Siglunesmúla í síðustu viku. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

Færst hefur í vöxt að björgunarsveitir hér á landi noti flygildi, eða svokallaða dróna, við æfingar og í verkefnum. Með því að festa myndavélar við tækið er hægt að skoða leitarsvæði úr lofti á mun skemmri tíma en tæki hóp björgunarsveitarmanna að fara yfir svæðið.

Ólafur Jón Jónsson í Hjálparsveit skáta í Reykjavík og í stjórn Flygildafélags Íslands segir að hitamyndavélar muni skipta miklu máli í framtíðinni.

Í síðustu viku lenti par í sjálfheldu í Nesskriðum og í Siglu­nes­múla við aust­an­verðan Siglu­fjörð í nótt. Fjórar sveitir Landsbjargar tóku þátt í verkefninu og var flygildi notað til að leggja mat á hvaða leið væri best að fara til að ná til fólksins.

Frétt mbl.is: Þurftu að telja kjark í parið

Henta vel fyrir leit í fjörum

„Við höfum verið að nýta þetta í leit, mest hér á höfuðborgarsvæðinu. Í dag eru tvær sveitir á höfuðborgarsvæðinu með flygildi, við í Hjálparskáta í Reykjavík (HSSR) og Flugbjörgunarsveitin. Við höfum nokkrum sinnum verið kölluð út innanbæjar og svo höfum við farið austur fyrir fjall að leita í Reykjadal og með Ölfusánni,“ segir Ólafur Jón í samtali við mbl.is.

Flygildin hafa meðal annars verið notuð í útkalli í Esjunni, til að kanna hentugar leiðir líkt og gert var í Siglunesmúla í síðustu viku. Ólafur Jón segir að sveitirnar séu duglegar að æfa sig að nota tækin utan útkalla. Um tíu mánuðir eru fá því að HSSR fékk fyrsta flygildið en fyrstu fjóra til fimm mánuðina var tækið aðeins notað á æfingum þar sem ná þarf góðum tökum á stjórn þess.

„Það er það sem við höfum verið að gera, fara í alls konar aðstæður utan útkalla og gera prófanir og tilraunir,“ segir Ólafur Jón. Flygildið er meðal annars hentugt þegar leitað er í fjörum. „Fjöruleit, sem er mjög erfið leit þar sem fólk gengur í fjöru þar sem flætt hefur frá, grjót stendur upp úr og þari er yfir öllu. Það er erfitt og mikil hætta á því að fólk detti og meiði sig.“

Sveitirnar hafa prófað að fljúga flygildi eftir strandlengju sem er rúmlega sjö kílómetrar að lengd og tók það um tíu mínútur. „Það er eitthvað sem hefði tekið 1-2 klukkutíma fyrir tuttugu manna hóp,“ segir Ólafur Jón. „Þetta er tímasparandi og í þessu ákveðna tilfelli, þar sem við erum að tala um fjöruleit, er fólk ekki að leggja sig í hættu með því að ganga í þaranum, í grjóti þar sem er mjög auðvelt að detta og brjóta sig eða eitthvað verra.“

Geta horft á eina hitapunktinn

Ólafur Jón segir að sveitirnar séu enn að fá tilfinninguna fyrir því hvar hentar að nota flygildi og hvar ekki.  „Ég er viss um að eftir tvö ár þegar við munum horfa aftur til þessa tíma í dag, þá munum við furða okkur á því hvað þetta var í rauninni lítið notað. Hins vegar er það þannig að eftir tvö ár verða komin flygildi sem verða veðurþolnari, geta þolað meiri rigningu og svona,“ segir hann.

HSSR tekur um þessar mundir þátt í tilraunaverkefni í samvinnu við DJI, framleiðandi algengustu flygildanna og EENA, samtök neyðarlínunúmera í Evrópu. Sveitin fékk lánaða hitamyndavél og notar hana í sex mánuði ásamt sveitum í þremur öðrum löndum. Vélin kostar sitt, eða hátt í 1,5 milljónir.

„Í rökkrinu dugar venjuleg myndavél skammt, en með hitamyndavél er hægt að leita allan sólarhringinn. Hún á eftir að skipta miklu máli í framtíðinni því það er frábært að geta horft úr lofti yfir ákveðið svæði og sjá skýrt og greinilega eina hitapunktinn á myndinni,“ segir Ólafur Jón. 

Reglugerðin verði ekki of íþyngjandi

Ólafur Jón segir að von sé á reglugerð frá innanríkisráðuneytinu þar sem fjallað er um flygildi. Hann segir stjórnarmenn í Flygildafélagi Íslands vonast til þess að reglugerðin verði ekki of íþyngjandi þannig að fólk geti æft sig með tækin.

„Þetta mun gagnast leitar- og björgunarfólki en líka bara almennri nýsköpun og þróun í atvinnulífinu,“ segir hann. „Okkar sjónarmið er það að það eigi að treysta fólki, ekki setja of íþyngjandi reglur. Það er auðveldara að þyngja þær en milda síðar.“

Hér að neðan má sjá myndskeið sem sýnir Elliðaárdalinn úr lofti. Myndskeiðið er tekið með flygildi. 

mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert