Lögreglustjóri brást of hart við

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu hafa …
Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu hafa brugðist of hart við þegar hann vék lögreglumanni úr embætti vegna rannsóknar héraðssaksóknara. mbl.is/Ómar

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu brást of hart við þegar hann vék lögreglufulltrúa, sem grunaður var um óeðlileg tengsl við brotamenn, úr starfi vegna rannsóknar héraðssaksóknara á máli hans. Þetta er mat Snorra Magnússonar, formanns Landssambands lögreglumanna.

Hann segir Landssamband lögreglumanna hafa krafist þess að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins. „Um hver niðurstaða málsins er, að lögreglumaðurinn hafi hafið aftur störf – sé bréfið sent eftir að það gerist – að búið sé að gera upp við hann þau laun sem hann á inni hjá embættinu og að hlutur hans hafi verið réttur að öllu leyti.“

Snorri bendir á að rannsóknin hafi kostað lögreglumanninn launamissi á versta tíma, enda hafi hann verið færður niður á hálf grunnlaun strax og ákvörðunin var tekinn í janúar sl.  

Ákvarðanatakan verið handahófskennd

„Það sem við höfum síðan verið að sjá í gegnum tíðina í þessum málum er að annars vegar er meðalhófs ekki gætt og hins vegar virðist ákvarðanatakan vera handahófskennd.“

Landssamband lögreglumanna og lögmenn þess hafi upplifað að skortur sé á samræmi í þeim málum  þar sem lögreglumönnum er vikið frá vegna ávirðinga eða rannsóknar. „Í þessu tiltekna tilviki teljum við líka að það hafi verið gengið lengra en tilefni var til,“ segir Snorri.

„Við höfum líka lagt áherslu á að það að víkja manni frá störfum er mjög íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun og þær á bara að taka að mjög ígrunduð máli. Þar verður að gæta meðalhófs og ákvarðanatakan má ekki ganga lengra en málið gefur tilefni til.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert