Bárust „orðsendingar“ um Snowden

Bandarískri uppljóstrarinn Edward Snowden.
Bandarískri uppljóstrarinn Edward Snowden. AFP

Íslenskum stjórnvöldum bárust tvö erindi frá yfirvöldum í Bandaríkjunum árið 2013 er vörðuðu uppljóstrarann Edward Snowden. Erindin bárust í júní og júlí, á sama tíma og yfirvöld vestanhafs fóru þess á leit að ríki Skandinavíu handsömuðu og framseldu Snowden ef hann ferðaðist þangað.

Innihald erindanna fæst ekki gefið upp. mbl.is fór þess á leit við utanríkisráðuneytið í september sl. að fá aðgang að þeim en var hafnað. Í svari ráðuneytisins var vísað í upplýsingalög og lög um meðferð sakamála. Niðurstaða ráðuneytisins var kærð til úrskurðarnefndar upplýsingamála, sem komst að þeirri niðurstöðu á þriðjudag að vísa málinu frá.

Komst nefndin að þeirri niðurstöðu „að aðgangur að hinum umbeðnu gögnum yrði ekki reistur á upplýsingalögum með vísan til 1. mgr. 4. gr. laganna, þar sem segir að þau gildi ekki um rannsókn sakamáls eða saksókn.“

Óskuðu eftir aðstoð stjórnvalda Norðurlandanna

mbl.is sagði frá því í ágúst sl. að sendiráð Bandaríkjanna og bandaríska alríkislögreglan hefðu sent stjórnvöldum í Noregi bréf í júní 2013, þar sem þess var óskað að ferðaðist Snowden til landins yrði bandaríska sendiráðið samstundis látið vita og greitt fyrir því að hann „sneri aftur“ til Bandaríkjanna.

Þar sagði m.a. að Snowden væri eftirlýstur vegna þjófnaðar á opinberum eigum og miðlun trúnaðargagna er m.a. vörðuðu þjóðaröryggi.

Erindi alríkislögreglunnar var sent stjórnvöldum í Noregi, Svíþjóð, Danmörk og Finnlandi, þar sem mögulegt var að fljúga beint þangað frá alþjóðaflugvellinum í Moskvu, þar sem Snowden hafðist þá við.

Í erindi FBI kemur fram að Snowden hefði einnig verið ákærður fyrir njósnir.

Beiðni Bandaríkjamanna til yfirvalda í Noregi var ítrekuð í júlí 2013 og m.a. vísað í framsalssamning ríkjanna frá 1977. Í viðkomandi erindi er þess farið á leit að allar eigur Snowden sem kunna að tengjast málinu gegn honum verði gerðar upptækar, þ. á m. tölvur og harðir diskar.

Úr erindi sendiráðs Bandaríkjanna til stjórnvalda í Noregi, dagsettu 27. …
Úr erindi sendiráðs Bandaríkjanna til stjórnvalda í Noregi, dagsettu 27. júní 2013. Birt af NRK

Beiðni um afrit hafnað

mbl.is óskaði eftir því við utanríkisráðuneytið íslenska að fá upplýsingar um hvort íslenskum stjórnvöldum hefðu borist erindi frá yfirvöldum í Bandaríkjunum árin 2013 og 2014 er vörðuðu Edward Snowden. Þá var óskað eftir upplýsingum um efni, og afritum af erindunum.

Í svari utanríkisráðuneytisins kom fram að ráðuneytinu hefðu borist tvær orðsendingar frá bandarískum stjórnvöldum „af framangreindu tilefni“, dagsettar í júní og júlí 2013.

Með vísan til 1. mgr. 2. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og niðurlags 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, yrði beiðni mbl.is um aðgang að gögnunum hins vegar ekki afgreidd á grundvelli upplýsingalaga. Henni væri því hafnað. Og með hliðsjón af 3. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 yrði afgreiðsla ráðuneytisins ekki rökstudd frekar. 

Ráða má af svörum utanríkisráðuneytisins að erindin sem bárust íslenskum stjórnvöldum hafi verið áþekk þeim sem bárust Noregi og hinum Norðurlöndunum. Þau erindi hafa verið birt af NRK.

Úr erindi sendiráðs Bandaríkjanna til stjórnvalda í Noregi, dagsettu 4. …
Úr erindi sendiráðs Bandaríkjanna til stjórnvalda í Noregi, dagsettu 4. júlí 2013. Birt af NRK

Varðar almannahagsmuni að fjalla um málið

mbl.is kærði ákvörðun utanríkisráðuneytisins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál hinn 13. október 2015.

Ákvörðun utanríkisráðuneytisins byggði m.a. á því að samkvæmt 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, gilda lögin ekki um rannsókn sakamáls eða saksókn. Þá vísaði ráðuneytið til 1. mgr. 2. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, en þar segir að gildissvið laganna taki til erinda frá erlendum yfirvöldum um aðgerðir hér á landi í tengslum við sakamál.

Kæra mbl.is byggði m.a. á því að hér á landi stæði ekki yfir rannsókn á máli né saksókn þar sem Edward Snowden kæmi við sögu. Þá virtust þau erindi sem borist höfðu stjórnvöldum á Norðurlöndunum ekki þessleg að það varðaði ríka hagsmuni að halda efni þeirra leyndu. Í þriðja lagi varðaði það almannahagsmuni að fjalla um málið og upplýsa hvað bandarísk stjórnvöld hefðu farið fram á og á hvaða forsendum. Einnig hver viðbrögð íslenskra stjórnvalda hefðu verið. Verulegir hagsmunir þyrftu að liggja því til grundvallar að hamla frekari umfjöllun og umræðu um málið.

Utanríkisráðuneytið.
Utanríkisráðuneytið. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Upplýsinganefndin óskaði eftir afritum af gögnunum við vinnslu málsins en var hafnað af utanríkisráðuneytinu á þeim forsendum að gögnin féllu utan gildissviðs upplýsingalaga. Nefndin reit ráðuneytinu þá annað bréf í nóvember sl. þar sem fram kom að hún hefði mat um það hvort gögn féllu utan við gildissvið laganna. Utanríkisráðuneytið afhenti nefndinni afrit af gögnunum í desember.

Í kæruferlinu ítrekaði mbl.is þá afstöðu sína að það varðaði hagsmuni almennra borgara að það væri uppi á borðum hvernig yfirvöld hegðuðu sér í framsalsmálum. Það ætti ekki síst við í þessu tilviki, þar sem umræða stæði yfir um afstöðu yfirvalda til uppljóstrara og í ljósi þess að Evrópuþingið hefði samþykkt ályktun þar sem aðildarríki sambandsins voru hvött til að koma í veg fyrir framsal Snowden.

Þá var m.a. bent á að þau skjöl sem NRK birti hefðu ekki borið þess merki að vera trúnaðargögn, þvert á móti hefðu þau verið merkt „unclassified“. Einnig var vakin athygli á því að mbl.is hefði ekki gefist kostur á því að svara öllum röksemdafærslum ráðuneytisins þar sem það fór fram á að ákveðin sjónarmið yrðu ekki kynnt kæranda.

Frétt mbl.is: Evrópuþingið kemur Snowden til varnar

Frétt mbl.is: Kröfðust framsals frá Skandinavíu

Ekki um að ræða formlega beiðni um framsal sakamanns

Sem fyrr segir komst úrskurðarnefnd upplýsingamála að þeirri niðurstöðu á þriðjudag að vísa málinu frá. Í niðurstöðunni er m.a. vísað til greinargerðar með frumvarpi til laga um meðferð sakamála; „þar segir að í fyrri málslið 1. mgr. sé gert ráð fyrir að mál sem eigi rætur að rekja til kröfu eða beiðni frá erlendum ríkjum, ýmist um framsal sakamanna, fullnustu erlendra refsidóma eða aðgerðir hér á landi í tengslum við sakamál, sæti meðferð samkvæmt lögunum.

Enda þótt umbeðnar orðsendingar feli ekki í sér formlega beiðni um framsal sakamanns þykir mega leggja til grundvallar að þær séu í vörslum utanríkisráðuneytisins sem liður í meðferð erinda frá erlendum yfirvöldum um aðgerðir hér á landi í tengslum við sakamál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert