Samkeppniseftirlitið vegur hart að búvörusamningum

Búvörusamningar voru undirritaðir í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu fyrr á árinu.
Búvörusamningar voru undirritaðir í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu fyrr á árinu. mbl/ Styrmir Kári

Samkeppniseftirlitið hefur gert þó nokkrar athugasemdir við frumvarp um nýja búverusamninga sem lagt er fram af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Það er samandregin niðurstaða eftirlitsins að endurskoða þurfi frumvarpið svo unnt sé að tryggja almannahagsmuni. Að óbreyttu komi það til með að vera skaðlegt hagsmunum neytenda og bænda og skapa réttaróvissu.

Búvörusamningarnir sem undirritaðir voru í vetur eru talsvert umdeildir og voru ekki afgreiddir á Alþingi fyrir sumarhlé en segir formaður atvinnuveganefndar að stefnan sé að afgreiða samningana fyrir kosningar á haustþingi.

Í umsögninni er vakin athygli að því að að óbreyttu muni mjólkuriðnaður færast nær því að vera undanskilinn samkeppnislögum. Eftirlitið varpar fram þeirri spurningu hvort Alþingi sé tilbúið að samþykkja sérreglur um Mjólkursamsöluna áður en niðurstaða rannsóknar, vegna hugsanlegs brots fyrirtækisins á banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu, liggi fyrir. Árið 2014 sektaði Samkeppniseftirlitið Mjólkursamsöluna um 370 milljónir fyrir misnotkun á markaði, því var áfrýjað til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og liggur niðurstaða ekki fyrir í því máli. Frumvarpið komi í veg fyrir eða takmarki beitingu banns á misnotkun á markaðsráðandi stöðu og fyrir því séu engar skýringar að finna í frumvarpinu.

Þá eru gerðar athugasemdir við að Mjólkursamsölunni sé sett sambærileg umgjörð og Landsneti, enda sé ekki hægt að bera fyrirtækin tvö saman. Bændur eigi Mjólkursamsöluna á meðan Landsnet er alfarið í eigu opinberra aðila. Engin rök séu þess til stuðnings að það sama geti gilt um náttúrulega einokun, eins og á við um Landsnet, og um mjólkurmarkað. Þessi breyting sé varhugaverð og kostir hennar og gallar verði að vera vandlega metnir áður en í hana verður ráðist.

Einnig segir í umsögninni að frumvarpið gefi ekki til kynna nokkra stefnubreytingu varðandi samkeppnislegt aðhald íslensks landbúnaðar. Nýlegur tollasamningur við Evrópusambandið muni ekki hafa áhrif á tollvernd á þeim vörum sem eru í beinni samkeppni við innlendar búvörur en þess í stað færist magntollar á mjólkurafurðum aftur til sama raunverðs og gilti í júní 1995. Þetta muni leiða til verðhækkunar til innlendra framleiðenda og neytenda. Þessi stefna sé ekki til þess fallin að skapa samkeppnislegt aðhald af innflutningi fyrir íslenskan landbúnað.

Loks sé hugtakið afurðarstöð illa afmarkað. Ef ætlun löggjafans sé að viðhalda undanþáguheimildum afurðarstöðva í búvörulögum sé nauðsynlegt að það sé ljóst við hverja þær eigi, það geti komið sérstaklega niður á smærri vinnsluaðilum sé það óljóst.

Umsögn Samkeppniseftirlitsins í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert