Lifði í 555 daga án hjarta

Larkin þegar hann var ennþá með gervihjartað, en hann þurfti …
Larkin þegar hann var ennþá með gervihjartað, en hann þurfti að ganga um með þennan bakpoka hvert sem hann fór.

Hinn 25 ára gamli Stan Larkin beið í 555 daga eftir hjartaígræðslu, en allan þann tíma lifði hann án þess að vera með hjarta í líkamanum. Þess í stað var grætt í hann gervihjarta sem hélt honum á lífi á meðan hann beið eftir hjartaígræðslunni, og þurfti hann að ganga um með bakpoka alla daga sem innihélt orkugjafa tækisins. 

Frá gervihjartanu í líkama Larkins lágu tvö rör út úr baki hans, sem voru tengd við orkugjafann í bakpokanum. Um er að ræða tæplega sex kílógramma tæki sem kallast FreedomDriver. Larkin segir að þrátt fyrir að hafa verið með rör út úr bakinu hafi gervihjartað virkað eins og venjulegt hjarta. Hann hafi spilað körfubolta og gert allt sem hann var vanur að gera, bara með bakpoka á bakinu.

Hjarta Larkins var fjarlægt úr líkama hans í nóvember árið 2014, en það var ekki fyrr en í maí á þessu ári sem nýtt hjarta var grætt í hann. Larkin er með ættgengan hjartasjúkdóm, en bæði hann og bróðir hans hafa þurft á hjartaígræðslu að halda. 

Bróðir Larkins, Dominique, beið í sex vikur eftir nýju hjarta, en Larkin þurfti að bíða í eitt og hálft ár. Er hann fyrsti sjúklingurinn í Michigan sem fer heim af sjúkrahúsi án þess að vera með hjarta í líkamanum, en yfirleitt þurfa sjúklingar með gervihjarta að vera á sjúkrahúsi til að hægt sé að halda því gangandi. Hann er þó ekki sá fyrsti í heiminum sem lifir með gervihjarta í langan tíma, en jafnan eru um fjögur þúsund manns í heiminum að bíða eftir hjartaígræðslu.

Þá þurfti að passa vel upp á að Larkin fengi ekki sýkingu með því að hreinsa reglulega götin tvö þar sem rörin komu út. Í dag er hann að jafna sig eftir hjartaígræðsluna og segist alsæll með lífið. „Nú er ég loksins orðinn venjulegur aftur og þarf ekki að bera bakpoka hvert sem ég fer,“ sagði Larkin í samtali við CNN-fréttastofuna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert