Ekki alltaf tryggðir í hjólakeppnum

Hjólakeppnir njóta sívaxandi vinsælda hér á landi og eru t.d. …
Hjólakeppnir njóta sívaxandi vinsælda hér á landi og eru t.d. rúmlega þúsund manns skráðir til þátttöku í WOW Cyclothon í vikunni. Kristinn Magnússon.

Undanfarin ár hefur áhugi Íslendinga á alls kyns hjóla- og hlaupakeppnum aukist til muna. Þá má sjá fólk æfa sig hvert sem litið er þótt stundum sé um að ræða fólk sem einfaldlega þráir hreyfingu án þess að vera að keppa að neinu sérstöku eða æfa sig fyrir næsta mót. Samhliða þessu hefur fólk fjárfest í æ dýrari keppnisbúnaði og á það sérstaklega við hjólreiðakeppnir. Getur verðmæti hjóls og aukabúnaðar jafnvel farið langleiðina í og jafnvel yfir tvær milljónir.

En hvernig er tryggingamálum háttað við æfingar og í keppni? Líklegt er að margir geri sér ekki grein fyrir að þeir geti verið ótryggðir þegar kemur að slysatryggingu og tryggingu fyrir hjólið sjálft. Það þarf nefnilega oft auka tryggingu fyrir slíka iðkun. Þetta er gott að hafa í huga t.d. fyrir þátttöku í keppni eins og WOW Cyclothon og Bláa lóns þrautinni.

Mbl.is hafði samband við tryggingafélögin TM, Sjóvá, Vörð og VÍS og óskaði eftir svörum við eftirfarandi spurningum:

  • Hvers konar hjólatrygging er innifalin í heimilistryggingum hjá ykkur, bæði er varða tryggingar á hjólinu sjálfu og slysatrygging fyrir hjólara?
  • Eru einhver takmörk fyrir því hvenær slík trygging er í gildi, t.d. varðandi keppnir, æfingar, hóphjólreiðar o.s.frv?
  • Ef það eru takmarkanir varðandi gildi tryggingar í keppnum og/eða æfingum, gildir það fyrir alla slíka viðburði, eða bara fyrir viðburði sem eru skipulagðir af sambandi innan ÍSÍ?
  • Eruð þið með sérstakar hjólatryggingar og hvað felst í slíkri tryggingu?

TM

Hjá TM fengust þau svör að hjól væru tryggð fyrir 100 þúsund krónur í algengasta fjölskyldu- og heimilistryggingapakka félagsins, heimilistryggingu TM3. Ef hjól eru verðmætari en það þarf viðbótarvernd. „Hjólin fást bætt sé þeim sannanlega stolið eða ef þau verða fyrir skemmdum vegna óvænts utanaðkomandi atburðar eins og ef hjólari dettur og hjólið skemmist við það,“ segir í svari félagsins.

Þá eru hjólreiðamenn einnig slysatryggðir í heimilistryggingapakkanum, en aðeins við almenna iðkun, ekki í æfingum eða keppnum. „Sú slysatrygging nær til slysa sem verða við almennar íþróttaiðkanir en undanskilin eru slys vegna þátttöku í keppni eða æfingum til undirbúnings fyrir keppni í hvers konar íþróttum,“ segir í svari TM.

Keppendur í WOW Cyclothoninu.
Keppendur í WOW Cyclothoninu. Kristinn Magnússon.

Þó er tekið fram að ef um sé að ræða almennar íþróttir, t.d. hlaup, hjól eða fjallgöngu, þá er viðmiðið að ef keppnin er opin almenningi og ekki þurfi að uppfylla ákveðin skilyrði fyrir þátttöku, þá falli keppnin undir heimatryggingu. Nefnd eru sem dæmi WOW Cyclothon og Color Run varðandi þetta atriði.

Sem svar við síðustu spurningunni vísar TM viðskiptavinum sínum á að ræða við ráðgjafa til að fara yfir tryggingar viðkomandi og í leiðinni möguleika á viðbótartryggingum fyrir keppnishjólreiðar.

Sjóvá

Hjá Sjóvá eru tjón á hjólum innifalin í algengustu heimilistryggingapökkunum; Fjölskylduvernd 2 og 3. Er hámarksupphæð þeirra 115.300 og 408.400 krónur. Verðmætari hjól þarf að tryggja sérstaklega, en sú trygging gildir meðal annars erlendis.

Frítímaslysatrygging er innifalin í fjölskylduverndinni og „bætir ýmis tjón sem kunna að verða við hjólreiðar í frístundum, þó ekki ef verið er að keppa á hjóli eða æfa fyrir keppni á hjóli.  Ef þú ert að æfa og keppa á hjóli þá þarftu að vera með almenna slysatryggingu,“ segir í svari Sjóvár. Er sérstaklega tekið fram að þeir sem taki þátt í keppnum eins og WOW Cyclothon og Bláa lóns þrautinni þurfi að huga sérstaklega að tryggingum sínum.

Þá er innifalið í fjölskyldutryggingapökkunum mögulegt tjón sem hjólreiðamaður veldur þriðja aðila, hvort sem það sé í keppni eða ekki.

Vörður

Hjá Verði falla tryggingar fyrir reiðhjól og tjón vegna þeirra undir heimilisvernd, heimilistryggingapakka fyrirtækisins. Þetta á við um tómstundaiðkun og þegar verðmæti hjóla er ekki mikið. Þannig eru takmarkanir á fjárhæðum vegna einstakra hluta sem fer eftir þeirri vernd sem fólk kaupir, en algengasta verndin takmarkar tjón við rúmlega 500 þúsund samkvæmt svari fyrirtækisins.

Frá WOW Cyclothon árið 2014.
Frá WOW Cyclothon árið 2014. mbl.is/Golli

„Slysatryggingar falla einnig undir Heimilisvernd  og gildir það líka við hjólreiðar þegar þær eru stundaðar til tómstundagamans. Fjölskyldutryggingar taka hins vegar ekki til slysa sem verða við hvers konar keppnir eða æfingar fyrir keppnir,“ segir í svari Varðar. Það er þó tekið fram að vegna WOW Cyclothon hafi verið gerð undanþága frá keppnisskilmálum og gildi slysatryggingar og hluti heimilisverndar fyrir þá keppni.

Bendir tryggingarfélagið á að fyrir dýrari hjól eða þá sem stundi keppnir og æfingar fyrir þær sé félagið með sérstaka reiðhjólatryggingu sem tekur til slysa sem verða við æfingar og keppnir, jafnt á Íslandi sem erlendis. Þá takið sú trygging einnig til tjóns á reiðhjólinu sjálfu og aukabúnaði sem því fylgi.

VÍS

VÍS tryggir hjól fyrir stuldi í F-plús fjölskyldutryggingum hjá félaginu. Fæst verðmæti hjólsins bætt gegn nótu um kaup, annars nemur fjárhæðin að hámarki 1% af innbústryggingu. Með innbúskaskói við F-plús eru hjól svo tryggð fyrir flestum óhöppum upp að ákveðnu hámarki sem er mismunandi eftir tryggingapakka.

Slysatrygging hjólareiðafólks í F-plús fjölskyldutryggingum tekur til frítíma, auk æfinga og keppni sem eru hvorki á vegum aðildarfélags ÍSÍ né annarra hjólreiða- eða íþróttafélaga. Slysatryggingin getur falið í sér örorkubætur, dagpeninga, greiðslu sjúkrakostnaðar innanlands og fleira; allt eftir því hvaða vernd viðskiptavinur velur sér.

Þá er í boði að fá sérstaka tryggingu fyrir verðmætari hjólum en hámarksvátryggingarfjárhæð tryggingapakkans nær til. Þá er einnig hægt að kaupa sérstaka slysatryggingu fyrir æfingar og keppnir sem ekki falla undir skilmála F-plús.

Hjólreiðafólk þarf meðal annars að horfa til þess hvort tryggingar …
Hjólreiðafólk þarf meðal annars að horfa til þess hvort tryggingar þeirra nái yfir keppnisæfingar, ekki síður en yfir keppnirnar sjálfar. mbl.is/Styrmir Kári

Hverjir eru þá tryggðir í WOW Cyclothon?

Samantekið þá eru keppendur í WOW Cyclothon slysatryggðir undir skilmálum algengustu heimilistryggingapakka tryggingarfélaganna hjá TM, Verði og VÍS en ekki hjá Sjóvá. Þá eru ákveðnar tryggingar fyrir hjólin sjálf í keppninni hjá TM og VÍS, en hámarksupphæð slíks tjóns er takmörkuð. Fyrir þá sem eiga hjól sem kosta nokkur hundruð þúsund krónur með aukabúnaði er því vissara að fara vandlega yfir tryggingapakkann. Í öðrum tilvikum geta viðskiptavinir fengið sérstakar hjólatryggingar. Þá þurfa viðskiptavinir Sjóvá að vera með almenna slysatryggingu til að vera tryggðir í keppninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert