Meðvitundarlaus í mánuð

Hjörtur Pálmi Guðmundsson
Hjörtur Pálmi Guðmundsson Ljósmynd/Úr einkasafni

„Ég var að keyra eins og vitleysingur. Svo flaug ég á hausinn og rotaðist. Ég lá meðvitundarlaus í mánuð og byrjaði ekki að ganga fyrr en eftir þrjá,“ segir Hjörtur Pálmi Guðmundsson, sem ætlar sér að hlaupa 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst. Hjörtur lenti í mótorhjólaslysi 2014 og var um tíma óvíst hvort hann vaknaði úr dái. „Ég var að keyra í Kömbunum þar sem var verið að breikka veginn, ég rann svo á lausamöl þegar ég var að taka fram úr bíl, þá á allt of miklum hraða. Mér varð það til lífs að séra Hjálmar Jónsson varð vitni að slysinu og kom þar fyrstur að eftir að ég hafði flogið út í móa, lá á grúfu og andaði ekki.“

Alvarlegar afleiðingar slyssins

Hirti var haldið sofandi í tvær vikur á gjörgæslu og í framhaldi af því lá hann í aðrar tvær á B6 en fór síðan inn á Grensás þar sem hann kom smám saman til og voru framfarirnar meiri en flestir bjuggust við. Hann gat ekki setið, haldið höfði né kyngt og var mjög kvalinn af taugaverkjum. En endurhæfingin á Grensási skilaði sínu og tveimur mánuðum eftir að Hjörtur vaknaði úr dáinu var hann farinn að ganga á ný. „Ég byrjaði smám saman að geta gengið og fór síðan að reyna við hlaupin í framhaldi af því.“ segir Hjörtur, en hann hefur reynt að hlaupa 2-3 sinnum í viku á þessu ári. „Ég hef alltaf verið í íþróttum svo þetta var í raun mín tilraun til að ná heilsunni aftur.“

Afleiðingar slyssins eru þó enn töluverðar, því Hjörtur hlaut útvortis taugaskaða svo hann missti mátt í hægri öxl og í hendi að úlnlið. Hann hleypur því með höndina í nokkurs konar fatla. „Hún var fyrst bundin við mig á meðan ég hljóp en núna er ég kominn út í það að ég set yfir axlirnar á mér ólar með handfangi sem ég held í. Fingurnir eru í lagi, en tvíhöfðinn og axlarvöðvarnir eru máttlitlir.“

Þá olli slysið alvarlegum heilaskaða. „Jafnvægið fór til dæmis allt úr skorðum, ég hélt ekki höfði og gat ekki gengið eða setið. Ég nota hvert tækifæri til að æfa jafnvægið, til dæmis með því að standa á öðrum fæti á meðan ég bíð eftir strætó.“ Aðrar afleiðingar heilaskaðans eru minnistap, sem Hjörtur segir vera þann skaða sem hann finnur hvað mest fyrir. „Hinar og þessar minningar eru smám saman að rifjast upp. Annars er skammtímaminnið enn slæmt og glufur í langtímaminninu.“

Hleypur fyrir Hugarfar

Hjörtur hleypur fyrir Hugarfar, sem er félag fólks með ákominn heilaskaða, aðstandenda og áhugafólks um málefnið. „Ég er búinn að vera í félaginu eiginlega frá því ég kom á Grensás. Í Hugarfari er alls kyns fólk með mismunandi vandamál. Þarna eru margir sem eru meira heilaskaðaðir og einnig margir sem eru betur settir, en flestir eru að berjast við svipuð vandamál og ég svo ég er þá ekki „öðruvísi” eins og ég upplifi mig stundum í kringum vinina.“

„Við hittumst og tölum saman og deilum reynslusögum. Kevin Pearce kom í vor og hélt fyrirlestur um sína lífsreynslu, þar sem hann hlaut heilaskaða við æfingar fyrir Ólympíuleikana,“ segir Hjörtur, en Kevin Pearce er heimsþekktur snjóbrettakappi sem hélt fyrirlestur á ráðstefnu Hugarfars á Grand Hótel í mars.

Í Reykjavíkurmaraþoninu hleypur Hjörtur með fólki nákomnu sér, en saman mynda þau hlaupahópinn Heilasellurnar. „Mamma, sem er komin á sjötugsaldur, ætlar að hlaupa með ásamt bróður mínum. Í hópnum eru líka frænkur mínar, þar af ein sem er 10 ára, frændur og vinir,“ en þau öll hlaupa þau fyrir Hugarfar.

Stefnir á að hlaupa á undir klukkustund

Hjörtur hefur sett sér markmið fyrir hlaupið, en hann ætlar sér að ljúka 10 kílómetrunum á undir klukkustund. Segir hann það hjálpa sér við undirbúninginn að hafa tímamarkmið, því það að hlaupa 10 kílómetra sé ekki mikil áskorun fyrir hann eitt og sér. Undirbúningurinn gengur vel að sögn Hjartar, sem segist líta á hann sem hluta endurhæfingarinnar. „Ástæðan fyrir því að ég er að hlaupa er aðallega sú að þetta hjálpar til við að laga heilann. Að fá hjartað til að pumpa og auka blóðflæðið til heilans, það hefur góð áhrif á batann.”

Hægt að fylgjast með áheitasöfnun Hjartar og leggja honum lið hér og hlaupahóp hans, Heilasellunum, hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert