Bloggar um bataferli eftir tvær heilablæðingar

Katrín Björk hóf að blogga um lífsreynslu sína og bataferli.
Katrín Björk hóf að blogga um lífsreynslu sína og bataferli. Ljós­mynd/ Styrkt­ar­sjóður Katrín­ar Bjark­ar

Hin 23 ára gamla Katrín Björk Guðjónsdóttir, lamaðist frá hvirfli til ilja í kjölfar tveggja heilablæðinga og blóðtappa sem hún varð fyrir. Í gær hóf hún að blogga um reynslu sína og bataferli, en þá var ár síðan hún fékk seinni heilablæðinguna.

Katrín er hægt og rólega að ná bata og segir hún það hafa verið ólýsanlega tilfinningu að finna loks vöðvana byrja að svara kalli heilans. Í fyrstu færslu sinni á bloggsíðunni segir hún það hafa verið „ótrúlega gleðileg stund,” en í fyrst hafi það verið tilviljanakenndir kippir sem svo urðu að viljastýrðum hreyfingum.

„Þegar lífið fer í átján kollhnísa, fimmtán handahlaup, tólf heljarstökk og brotlendir svo, þá er gott að vera umvafinn góðu fólki,“ eru orð sem Katrín hefur notað til að lýsa reynslu sinni. Hún tók þá ákvörðun að byrja að blogga svo fólk gæti fylgst með henni, bæði vinir hennar og starfsfólk heilbrigðisstofnanna sem hún ber mjög vel söguna, og allir þeir sem áhuga kunni að hafa. Þá segir hún bloggið einnig vera ákveðna ögrun fyrir sig: „En ég er líka að sanna mig, það vill oft verða þannig að fólk kemur öðruvísi fram við mig vegna þess að ég tala ekki, sumir byrja jafnvel að æpa á mig og halda að ég sé heyrnalaus líka. En ég hef ekkert breyst, ég hef bara tekið út ótímabæran þroska,“ útskýrir Katrín í færslunni.

„Í dag er lífið ekki svo svart, það er bara fallega grátt“

Katrín lýsir því hve erfitt það geti verið vakna upp til hversdagsleikans, þá sérstaklega þar sem hún gat sig hvorki hreyft né tjáð. Nú getur hún gengið hafi hún eitthvað sér til stuðnings, en notast þó oftast við hjólastól. Hún getur tjáð sig með því að stafa en segist tala illskiljanlega. „Í dag er lífið ekki svo svart, það er bara fallega grátt,“ segir hún í færslunni.
Katrín er í mikilli þjálfun og er alltaf að sjá framfarir. „Hugurinn ber mig hálfa leið og viljinn restina, það skiptir svo miklu máli að hafa hugafarið og brosið í lagi,“ segir Katrín. Hún sér bloggsíðuna sem vettvang til að deila einhverju jákvæðu með lesendum, hvort sem það snýst um snyrtivörur, tísku, hönnun, líf sitt eða fréttir af baráttu sinni við að endurheimta kraftinn.

„Lífið það er ekki erfitt nema maður geri það erfitt. Á vegi manns verða erfiðleikar og áföll en það er okkar að vinna úr og láta það ekki eyðileggja lífshamingjuna. Því gleðiglampinn í augum og brosið fleytir manni svo miklu lengra og ég ætla mér að halda í það eins lengi og ég lifi,“ segir Katrín enn fremur. Færslu Katrínar má lesa í heild sinni hér.

Af bloggsíðu Katrínar Bjarkar

Fréttir mbl.is:

„Kippt út úr hringiðu lífsins"

„Við vökum yfir henni"

Allur ágóði rennur til Katrínar

Endurhæfing gengur framar björtustu vonum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert