Morðingi og Malaga-fanginn yfirheyrðir

Guðmundur Einarsson.
Guðmundur Einarsson. mbl.is

Mennirnir sem handteknir voru á þriðjudag í tengslum við rannsókn á Guðmundarmálinu, einu þekktasta og umdeildasta sakamáli Íslandssögunnar, hafa komið oft við sögu hjá lögreglu. Annar þeirra hefur verið dæmdur í tvígang fyrir morð en hinn er þekktur sem „Malaga-fanginn“.

Frétt mbl.is: Þórður og Stefán hand­tekn­ir vegna Guðmund­ar- og Geirfinns­máls.

Greint var frá nöfnum mannanna fyrr í kvöld. Báðir eru þeir á sextugsaldri og voru því 16 og 17 ára gamlir þegar Guðmundur Einarsson hvarf hinn 29. janúar 1974 í Hafnarfirði. 

Ríkissaksóknari fékk ábendingu um hugsanlega aðild mannanna að málinu en meintur þáttur þeirra í málinu snýr að því að flytja lík Guðmundar eftir að hann var myrtur.

Þórður Jóhann Eyþórsson dæmdur tvisvar fyrir morð

Þórður Jóhann Eyþórsson myrti Óskar Árna Blomsterberg á nýársnótt 1983 með því að stinga hann en Þórður hafði lengi eldað grátt silfur við Óskar sem lauk með uppgjöri umrædda nótt.

Í tímaritinu Eintaki birtist ítarleg umfjöllun um ævi Þórðar árið 1994 þar sem segir að Þórður hafi verið mjög drukkinn þetta kvöld og bar hann fyrir sig að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því hvernig hnífurinn sneri í hendi hans þegar hann lagði til atlögu gegn Óskari. Greinina skrifaði Gerður Kristný Guðjónsdóttir. 

Seinna morðið var árið 1993 en þá stakk Þórður fyrrverandi sambýlismann þáverandi kærustu sinnar. Umrætt kvöld hafði Þórður drukkið mikið og tekið inn amfetamín þegar hann frétti af því að kærasta hans hefði reynt að finna hann á skemmtistað í Reykjavík áður en hún hélt heim með fyrrverandi sambýlismanni sínum.

„Malaga-fanginn“ Stefán Almarsson

Í greininni sem birtist í Eintaki er ævi Þórðar rakin. Er þar sagt að hann hafi verið í slæmum félagsskap þegar hann var ungur og er Sigurður Stefán Almarsson, kallaður Stefán Almarsson, nefndur í því sambandi. Stefán Almarsson hefur verið þekktur sem „Malaga-fanginn“ en hann var fangi á Spáni áður en hann var síðar framseldur til Íslands. 

Fréttatíminn segir þetta ekki vera í fyrsta sinn sem tilgáta hefur komið upp um aðild Stefáns að Guðmundarmálinu en aðstandendur heimildarmyndarinnar um Geirfinns- og Guðmundarmálið hafi reynt að ná tali af honum en án árangurs.

Í samtali við Fréttatímann lýsir Stefán sig saklausan í þessu máli. Hann segir hvorki sig né Þórð hafa komið nálægt málinu og þetta komi honum mikið á óvart.

Fjallað var ítarlega um ævi Þórðar Jóhanns Eyþórssonar í Eintaki …
Fjallað var ítarlega um ævi Þórðar Jóhanns Eyþórssonar í Eintaki árið 1994. Skjáskot/Tímarit.is

Stefán kom ábendingu til lögreglu um hvar mætti finna líkin

Þá fékk Rannsóknarlögregla ríkisins (RLR) heimild til leitar í jarðvegi garða við Grettisgötu 82 að líkamsleifum bæði Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar á sínum tíma. Leitin var byggð á upplýsingum sem RLR bárust frá Stefáni sem þá sat inni á Litla-Hrauni.

Í skýrslu starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmálið segir að Stefán hafi haft þessar upplýsingar eftir Kristjáni Viðari Viðarssyni, einum þriggja sem dæmdir voru fyrir morðið á Guðmundi.

Umfjöllun í Dagblaðinu-Vísi um Malagafangann í desember árið 1985.
Umfjöllun í Dagblaðinu-Vísi um Malagafangann í desember árið 1985. Skjáskot/Tímarit.is

„Í upplýsingaskýrslu Eggerts N. Bjarnasonar og Sigurbjörns Víðis Eggertssonar 28. maí 1978 kemur einnig fram að Sigurður Stefán hafi ekki viljað gefa aðrar upplýsingar en að líkin væru grafin við nefnt hús. Um tíma hafi hann virst samþykkur því að skýra frá þessu fyrir dómi án annarra skilyrða en að fá að vera viðstaddur uppgröft,“ segir í skýrslunni.

Stefáni snerist síðar hugur og vildi hann ekki staðfesta sína vitneskju nema honum yrði veitt reynslulausn frá dómnum sem hann afplánaði. Leitað var í garðinum við Grettisgötu 82 með stálteinum að kvöldi dags 14. júlí 1978 en leitin bar ekki árangur frekar en aðrar leitir að Guðmundi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert