Snýst um frelsi og réttindi fólks

„Við erum með barnalög og í fyrstu grein þeirra segir …
„Við erum með barnalög og í fyrstu grein þeirra segir að það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess. Ef foreldrar ætla að nefna eða skíra barn sitt nafni sem beinlínis er niðurlægjandi er vandamálið stærra og meira en nafngjöfin.“ mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ný mannanafnalöggjöf snýst um frelsi og réttindi fólks og að takmarka þær reglur sem hið opinbera setur. Treysta þarf fólki til þess að gefa börnum sínum og sjálfu sér nöfn. Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, aðstoðarkona innanríkisráðherra, en í vikunni kynnti ráðherra drög að nýju frumvarpi um mannanöfn. Í drögunum eru lagðar fram róttækar breytingar á löggjöfinni sem fela m.a. í sér að mannanafnanefnd verði lögð niður.

Fyrri frétt mbl.is: Róttækar breytingar á mannanafnalöggjöf

„Einhverjum kann að þykja þetta lítið mál en það er þó þannig að allir hafa á því skoðun,“ segir Þórdís í samtali við mbl.is og bætir við að þetta sé auðvitað mikið mál fyrir þá sem hafa fengið höfnun frá nefndinni, sem vinni samkvæmt gildandi lögum.

Hún segir Ólöfu Nordal innanríkisráðherra vilja sjá miklu meira frelsi í löggjöfinni og að fólki verið treyst til að velja nöfn á börnin sín sjálf eða skipta um nafn óski það eftir því.

Í drögunum sem birt voru í vikunni er í raun lagt til að mannanafnalöggjöfin eins og hún er núna verði lögð niður. Þá myndu ákvæði sem snúa að ýmsum tæknilegum atriðum verra færð inn í lög um þjóðskrá og almannaskráningu. Þórdís segir aðdragandann nokkuð langan en fyrir ári var farið í það að kanna viðhorf almennings til löggjafarinnar. Hún segir skýrt að þetta sé frelsismál fyrir marga.

Drögin voru unnin hér í ráðuneytinu af sérfræðingum, í samráði við ráðherra og aðstoðarmenn. Þá var frumvarp Óttars Proppé og fleiri haft til hliðsjónar. Það frumvarp fór til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis. Nefndin lagði áherslu á að nauðsynlegt væri að breyta gildandi lögum um mannanöfn. Skoðun nefndarmanna var að við heildarendurskoðun laganna skyldi hafa að leiðarljósi rétt hvers manns til nafns sem njóti verndar skv. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og að sá réttur verði aðeins takmarkaður með sérstakri lagaheimild ef brýna nauðsyn beri til vegna réttinda annarra. Varð það niðurstaða allsherjar- og menntamálanefndar að leggja til að frumvarpinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar.“

Ekki endanleg ákvörðun

„Ólöfu fannst mikilvægt að birta drögin og hvetja til umræðu og óska eftir umsögnum og athugasemdum. Þetta eru drög til umræðu, í þessu felst ekki endanleg pólitísk ákvörðun um að þetta verði svona. Þetta er mál sem allir hafa skoðun á og svo erum sumir sem hafa til dæmis áhyggjur af nafnahefð og íslenskri tungu. Þess vegna vill Ólöf halda umræðunni áfram,“ segir Þórdís. 

Segir hún mjög litlar skorður settar í drögunum og þarf að treysta því að fólk nefni eða skíri börnin sín ekki nöfnum sem geta verið skaðleg fyrir þau. „Við erum með barnalög og í fyrstu grein þeirra segir að það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess. Ef foreldrar ætla að nefna eða skíra barn sitt nafni sem beinlínis er niðurlægjandi er vandamálið stærra og meira en nafngjöfin.“

Takmarkanir í nafnagjöfum í drögunum eru m.a. þær að fólki sé skylt að tilkynna þjóðskrá um nafn innan sex mánaða frá fæðingu barns. Þá þarf að gefa upp eitt eiginnafn og eitt kenninafn, nöfn þurfa að vera rituð með bókstöfum íslenska stafrófsins, vera nafnorð, auðkennd með stórum upphafsstaf og án greinis. Sé eiginnafn af íslenskum uppruna skal það falla að íslensku beygingarkerfi en það er ekki skilyrði ef um viðurkennt erlent nafn er að ræða. Uppfylli nöfn ekki skilyrðin ber Þjóðskrá Íslands að hafna skráningu

Þórdís Kolbrún er aðstoðarmaður Ólafar Nordal innanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún er aðstoðarmaður Ólafar Nordal innanríkisráðherra. mbl.is/Golli

Þórdís segir það skoðun margra að mannanafnalöggjöfin hér á landi sé barn síns tíma. Við búum við breyttan veruleika t.d. með fjölgun útlendinga hér á landi, fjölbreyttari nöfnum með fjölbreyttari skírskotun og aukningu meðal þeirra sem fara í kynleiðréttingu eða vilja ekki vera skilgreindir sem ákveðið kyn.

Þórdís segir að við undirbúningsvinnuna hafi það verið skoðað hvernig þessum málum er háttað á Norðurlöndunum og á flestum stöðum eru einhvers konar skorður settar, hvort sem það sé með sérstakri nefnd eins og hér eða með öðrum leiðum. Leggur hún þó áherslu að ekki sé hægt að amast út í mannanafnanefnd þar sem hún vinnur aðeins eftir þeim lögum sem Alþingi setur.

Umsagnafrestur um drögin að frumvarpinu er til 1. ágúst og vonast ráðherra eftir að sem flestir skili umsögnum og athugasemdum, að sögn Þórdísar, sem segir markmið ráðherra vera að þróa málið áfram.

„Þetta snýst bæði um réttindi og frelsi fólks en einnig að takmarka þær reglur sem hið opinbera setur. Hagsmunir hins opinbera af því að banna nöfn eru ekki ríkari en frelsi hvers og eins til þess að ráða sínu nafni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert