Flestir telja að Ísland komist upp úr riðlinum

Íslenskir áhorfendur á leik Íslands og Portúgal í Saint-Étienne.
Íslenskir áhorfendur á leik Íslands og Portúgal í Saint-Étienne. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Tæplega 42% Íslendinga telja að Ísland komist í sextán liða úrslit á Evrópumótinu í knattspyrnu í Frakklandi samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallups. Nær þrír af hverjum tíu Íslendingum telja að íslenska liðið komist ekki upp úr riðlakeppninni.

Samkvæmt könnuninni telja tæp 13% að landsliðið komist í átta liða úrslitin en tæp tíu prósent að það komist í undanúrslitin. Aðeins tvö prósent telja að liðið spili til úrslita en nær 5% segjast hafa trú á því að Íslendingar verði Evrópumeistarar.

Flestir Íslendingar telja að Þjóðverjar verði Evrópumeistarar í ár, eða nær fjórir af hverjum tíu. 16,6% telja að Frakkar vinni mótið og 13,4% Spánverjar. Þess má til gamans geta að spurt var sömu spurningar í Englandi, Frakklandi, Ítalíu, Þýskalandi, Hollandi, Svíþjóð og Wales fyrir Evrópumótið og töldu allar þjóðirnar nema Frakkar að Þjóðverjar stæðu uppi sem sigurvegarar. Frakkar hafa aftur á móti trú á því að þeir verði sjálfir Evrópumeistarar.

Samkvæmt könnuninni hefur jafnframt nær helmingur Íslendinga mikinn áhuga á mótinu, en tæplega fjórir af hverjum tíu lítinn eða engan áhuga. Þar af hefur fimmtungur Íslendinga engan áhuga á keppninni.

Könnun Gallups var gerð dagana 8. til 14. júní. Svörin eru öll frá því fyrir fyrsta leik Íslendinga á mótinu.

Haft var samband við 1.409 manns á öllu landinu. Fjöldi svarenda var 858 eða 60,9%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert