Götuspyrna og reykspólun á morgun

Frá bílasýningunni í dag.
Frá bílasýningunni í dag. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson

Formaður Bílaklúbbs Akureyrar segir bílasýninguna á Bíladögum á Akureyri hafa tekist mjög vel og telur hann að met hafi verið slegið í aðsókninni í dag. Síðasti dagur hátíðarinnar er á morgun sem hefst með götuspyrnu í hádeginu og lýkur með reykspólun um kvöldið.

„Bílasýningin tókst stórkostlega. Boginn var stútfullur af tækjum, gestir ánægðir og mér sýnist að það hafi verið metaðsókn á sýninguna í dag,“ segir Einar Gunnlaugsson, formaður Bílaklúbbs Akureyrar.

Þorgeir Baldursson

Hann segir einhverja dýrustu fornbíla landsins hafa verið á sýningunni, þ.m.t. Jagúar-bílar Jónsa bílamálara sem eru metnir á allt að hundruð milljóna kr. Um er að ræða litla sportbíla af svokallaðri MG-gerð.

Bíladagar hófust á miðvikudaginn með skrensi, eða drifti eins og ökuþórar kjósa að kalla það. Leikar héldu áfram í gær með ökuleikni á tíma. Einar segir alla ökuþóra geta tekið þátt í ökuleikninni alveg óháð því hvernig bíl þeir aki. Í gærkvöldi fór fram sandspyrna þar sem öflugustu spyrnutæki landsins voru saman komin.

Þorgeir Baldursson

„Svo sjáum við fram á einhverja bestu götuspyrnu sem við höfum haldið, á morgun,“ segir Einar. „Hún hefst klukkan 13 og er til svona 16, 17. Það eru hátt í 100 tæki skráð, met er í þátttöku á svæðinu hjá okkur þannig þetta stefnir í eitthvað stórt,“ segir Einar og bætir við að „alvöru græjur“ verði í keppninni á morgun.

Hátíðinni lýkur, líkt og segir að framan, annað kvöld með flugeldasýningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert