Lögreglan leitaði ekki í íbúðinni

mbl.is/Eggert

Húsleit lögreglu á heimili sambýliskonu Stefáns Almarssonar, sem er annar tveggja manna sem yfirheyrðir voru vegna Guðmundarmálsins, var nauðsynleg vegna þess að hann meinaði lögreglu inngöngu í íbúðina. Lögreglan fékk því úrskurð um húsleit til þess að fara inn í íbúðina og handtaka manninn en leitaði ekki í íbúðinni. Davíð Þór Björgvinsson, settur saksóknari endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálsins, staðfestir að húsleitarheimild hafi verið fengin vegna þessa í samtali við Morgunblaðið.

Hafa báðir afplánað refsidóma

Stefán, sem einnig er þekktur sem Malagafanginn, hefur hlotið 39 dóma hér á landi. Hinn maðurinn sem færður var til yfirheyrslu vegna málsins heitir Þórður Jóhann Eyþórsson og hefur hann tvívegis orðið manni að bana, annars vegar á nýársnótt 1983 og hlaut hann þá 14 ára fangelsisdóm og hins vegar árið 1993 þegar hann var á reynslulausn.

Rannsókn verði lokið í haust

Davíð Þór segir að endurupptökunefndin stefni á að ljúka rannsókn sinni á málinu í haust, en nú fari fram mat á gögnum málsins og á því hvort frekari rannsóknaraðgerða sé þörf, en rannsóknin er í höndum lögreglunnar.

Þegar rannsókn á þeirri ábendingu, sem leiddi til handtöku mannanna, er lokið munu talsmenn sakborninganna í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu fá gögnin í hendurnar. „Þegar þessum rannsóknarþætti er lokið munu talsmenn upptökubeiðenda fá gögnin í hendur, en ég veit ekki á þessu stigi hvenær nákvæmlega það verður,“ segir Davíð Þór.

Verjendur Stefáns og Þórðar Jóhanns vildu ekki tjá sig um málið við Morgunblaðið þegar eftir því var leitað í gær.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins kvaðst í gær hafa heimildir fyrir því að áður hefðu verið teknar skýrslur af öðrum mannanna vegna málsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert