Rækti pólitískt eigindi listarinnar

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands.
Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands. Ljósmynd/Listaháskólinn

List er pólitísk. Hún er pólitísk í afstöðu sinni til hefðar, sögu og samtíðar. Hún er líka pólitísk þegar hún tekst á við hversdagsleikann, hið upphafna, innra líf eða jafnvel neindina. Svona hófst ræða Fríðu Bjarkar Ingvarsdóttur, rektors Listaháskólans, við útskriftarathöfnina í dag.

Gerði hún að umtalsefni sínu pólitík og list og áhrif þess hvort á annað.

„Listin, umfram önnur vísindi er byggja á glímu hugaraflsins við raunveruleika mannskepnunnar, er því eitthvert sterkasta mótunarafl heimssögunnar. Í listinni geymum við andrými hvers tíma; menninguna og mennskuna.“

„Þrátt fyrir þessi óumdeildu sannindi um vægi listanna, á listsköpun sem og varðveisla og framsetning menningararfleifðarinnar mjög undir högg að sækja hér á landi. Listir njóta ekki sannmælis; ekki sem skapandi vísindi, ekki sem fræðasvið, ekki sem atvinnugrein eða sem forsenda nýsköpunar. Til lista er horft í orði en ekki á borði. Listir njóta ekki skilnings þeirra sem bera hitann og þungann af því að móta samfélagsmyndina,“ sagði Fríða Björk.

„Skilningsleysi gagnvart háskólastiginu“

Hún sagði stjórnmálin hafa þrengt svo skilgreininguna á hinu pólitíska og um leið fókusinn á samfélagið að einungis skammtímasjónarmið eða þröngir hagsmunir þeirra sem eru frekir til valdins ráði ríkjum.

„Skilningsleysi gagnvart háskólastiginu er þó sýnu alvarlegast hvað viðkemur háskólanámi í listum. Listaháskóli Íslands, sem í dag útskrifar 140 nemendur sem allir stóðust einhver ströngustu inntökuskilyrði háskólanáms á Íslandi og erfitt nám í kjölfarið, ber til að mynda ábyrgð á því að viðhalda einni stærstu atvinnugrein þjóðarbúsins og skákar þar áliðnaði, fiskvinnslu og landbúnaði hvað fjölda ársverka varðar.“

„Hópur þeirra sem vinna við skapandi atvinnugreinar hér á landi telur nú um 15 – 20 þúsundir, sem með störfum sínum stuðla þar að auki að margvíslegum afleiddum verkefnum er aðrar atvinnugreinar byggja sína afkomu á – nægir að nefna ferðaþjónustu sem dæmi.“

Þá ræddi hún einnig það að listnemar „séu nauðbeygðir til að kosta meiru til en aðrir við menntun sína.“

„Af hverju þeir þurfi að fjármagna sína menntun með skólagjöldum, þegar flestir sem velja sér aðrar námsleiðir á Íslandi þurfa ekki að greiða skólagjöld. Og að þegar þeir útskrifast, skuli þeir sömu og sköpuðu þeim þetta dýra námsumhverfi jafnvel ætlast til þess að þeir vinni ókeypis eða fyrir lítið fé.“

Að lokum sendi Fríða nýútskrifaða nemendur út í heiminn með eftirfarandi skilaboðum:

„Það er ykkar sem farið héðan út í dag, sem vel menntaðir listamenn, að glíma við það viðhorf sem ég hef lýst í þessu ávarpi og vinna á því bug. Halda áfram að rækta pólitísk eigindi listarinnar og samþætta þau þjóðfélagsmyndinni, samfélaginu til heilla.“

„Ég efast ekki um að ykkur muni takast það, með samtakamætti, frjórri hugsun, skapandi ferlum og auðvitað óbilandi trú á framgang ykkar eigin listsköpunar og annarra.“

Útskriftarhópurinn í Hörpu í dag.
Útskriftarhópurinn í Hörpu í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert