Mun ekki kjósa í forsetakosningunum

Ólafur Ragnar Grímsson ætlar ekki að kjósa á laugardaginn.
Ólafur Ragnar Grímsson ætlar ekki að kjósa á laugardaginn. mbl.is/Golli

„Þegar ég læt af þessu embætti er gleði mín í hjarta ekki bara yfir því að ég skyldi persónulega haft rétt fyrir mér, heldur að þjóðin skyldi upplifa það að gegn öllum þessum valdastofnunum sameinuðum skyldi hún hafa rétt fyrir sér,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson um embættisstörf sín eftir fjármálakreppuna í viðtali hjá Páli Magnússyni á Sprengisandi á Bylgjunni í dag.

„Ef menn halda það að ég hafi tekið ákvörðun um Icesave út frá pólitísku fiffi eða út frá stöðu minni persónulega þá er það misskilningur. Skoðanakannanir sýndu fyrst eftir að ég tók ákvörðunina, ef ég man rétt, að 60% þjóðarinnar voru á móti ákvörðuninni. Forystumenn ríkisstjórnarinnar sögðu að ákvörðunin væri þess eðlis að ef lögin stæðust atkvæðagreiðsluna þá yrði ég að segja af mér.“

Sjá frétt mbl.is: Erfitt að vera ástfanginn forseti

Evrópuþjóðir enn ósammála niðurstöðunni

Hann lýsir því hvernig það hafi verið að ræða Icesave við gamla samherja sína í stjórnmálum í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.

„Við tók ríkisstjórn sem var skipuð mínum gömlu samherjum. Þegar ég settist við endann á ríkisráðsborðinu þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við, og horfði á þá sem þar voru, og þegar meirihlutastjórnin tók við nokkrum mánuðum seinna, höfðu allir þeir sem voru flokksbundnir verið í Alþýðubandalaginu þegar ég var í formaður nema Jóhanna. Þetta var eins og að koma á gamlan flokksfund. Sumir þeirra voru nánir vinir mínir og höfðu verið lengi og eru enn eins og til dæmis Össur [Skarphéðinsson].“

Ólafur segist hafa boðað alla ráðherrana á einkafundi með sér á Bessastöðum þar sem þeim gafst rými til að ræða ákvörðun forsetans við hann eins ítarlega og þau vildu.

„Öll ríki í Evrópu, þar með talin öll ríki Norðurlanda voru á móti þessari ákvörun. Ég get sagt þetta hér, því ég veit að það er rétt, að eftir að hinn endanlegi sigur var í höfn með úrskurði EFTA-dómstólsins, þá var enn andstaðan í okkar garð svo ríkuleg í hópi ráðamanna evrópuríkja og norðurlandaríkja að þeir töldu enn niðurstöðu EFTA-dómstólsins vera galna. Og sögðu það í sínum hópi. Þess vegna var sjálft hrunið kannski ekki það alvarlegast fyrir mig, heldur að standa frammi fyrir því í ársbyrjun 2010 að ég yrði einn að taka ákvörðun um það í andstöðu við ríkisstjórnir í Evrópu, þingið og nánast alla sérfræðinga í landinu að vísa málinu til þjóðarinnar,“ segir Ólafur.

Útilokar ekki að gefa út bók

Ólafur var spurður af Páli Magnússyni, þáttastjórnanda Sprengisands, hvort hann ætli sér að skrifa bækur nú þegar hann lætur af embætti á næstunni.

„Ég er nýlega búinn að koma þorranum af mínu skjalasafni til Þjóðskjalasafnsins. Þau ná yfir langt tímabil og verður hægt að nota til að kortleggja minn feril.“

„Ég er þeirrar skoðunar að þeir sem hafa gegnt störfum eins og ég, eigi að veita aðgang að sínum skjölum, ekki eftir 30, 40, 50 ár heldur fljótt svo þjóðin geti dregið lærdóma í tæka tíð. Það getur verið að ég skrifi eitthvað sjálfur eða með öðrum,“ segir Ólafur en alls var farið með 190 kassa af skjölum á safnið, og er þá enn eitthvað eftir.

Ætlar ekki að greiða atkvæði í forsetakosningunum

Þá var Ólafur spurður hvernig honum fyndist kosningabaráttan fara fram. Hann segist ekki nægilega ánægður með umfjöllun fjölmiðla og vill að hún sé meiri. „Mér finnst fjölmiðlar eiga að sinna þessu meira en þeir hafa gert. Þeir eiga að búa til miklu fjölþættari dagskrá og þeir eiga að leiða saman einstaklinga til að þeir geti rætt hver við annan í stað þess að ræða 7–8 saman.

„En innan þessara því miður takmörkuðu tímamarka hefur mér fundist umræðan vera frekar efnisrík. En ég er ánægður með það, þar sem ég hef oft verið gagnrýndur með það varðandi stjórnskipunarlega stöðu forsetans að ég hafi búið það til, að kosningabaráttan núna er pólitískasta umræða sem hefur farið fram í forsetakosningum. Þeir sem hafa gagnrýnt mig fyrir að ég sé að búa eitthvað til, sjá að þegar ég er ekki á vellinum þá er umræðan pólitískari en áður,“ segir Ólafur Ragnar og bætir við að hann ætli sér ekki að greiða atkvæði.

„Ég ætla ekki að kjósa. Það kann að hljóma undarlega. Ég hef hingað til bara kosið í forsetakosningum og svo kaus ég í Icesave. Mér finnst rétt að forsetinn sé ekki að stuðla að vangaveltum um það hvern hann hafi kosið,“ sagði Ólafur Ragnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert