98,9% horfðu á leikinn gegn Ungverjum

AFP

Samtals sáu 98,9% sjónvarpsáhorfenda íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu etja kappi við Ungverja á EM2016 á laugardaginn sem lauk með 1:1 jafntefli samkvæmt tölum frá Gallup. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Símanum.

„Helmingur allra landsmanna á aldrinum 12–80 ára horfði á leikinn frá upphafi til enda eða 123 þúsund manns. Tuttugu og fjögur þúsund til viðbótar voru með annað augað á leiknum og samtals sáu hann því 147 þúsund á aldrinum 12–80 ára,“ segir enn fremur.

Þetta er hliðstætt við landsleikinn við Portúgal en 98,4% sjónvarpsáhorfenda fylgdust með honum. Fram kemur að 123 þúsund manns hafi fylgst með leiknum á laugardaginn í sjónvarpinu fyrir utan þau þúsund sem voru á staðnum. Þá hafi tugir þúsunda til viðbótar verið með annað augað á leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert